Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri og eigandi WOW air, segist dást að þrautseigju stofnenda nýja flugfélagsins Play. Skúli óskar þeim innilega til hamingju með þennan áfanga og segist vita hversu „mögnuð“ þau, sem standi að stofnun nýja félagsins, séu.
Þetta skrifar Skúli á Facebook-síðu sína og segist þar hlakka til að fara út í heim að leika.
Stofnendur nýja félagsins, sem kynnt var í morgun undir heitinu Play, eru fyrrverandi starfsmenn WOW air. Fyrst heyrðist af stofnun flugfélagsins í júlímánuði, en þá greindi Fréttablaðið frá því að írski fjárfestingasjóðurinn Avianta Capital hefði skuldbundið sig til þess að leggja nýja flugfélaginu til rúmlega fimm milljarða króna í hlutafé.
Félagið réð starfsfólk og hóf starfsemi í byrjun ágúst á nýrri skrifstofu á Reykjavíkurvegi í Hafnarfirði, þar sem Actavis hafði áður aðstöðu.