„Þetta vekur að sjálfsögðu spurningar þegar sérstaklega er stofnað nýtt stéttarfélag eða deild innan stéttarfélags – sem gengur á aðildarsvæði stéttarfélags sem fyrir er – samhliða stofnun nýs fyrirtækis.“
Þetta segir Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ), í samtali við mbl.is vegna fregna um að flugfreyjur og flugmenn flugfélagsins Play verði saman í sérstöku stéttarfélagi – Íslenska flugstéttarfélaginu.
„Flugfreyjufélagið er rosalega sterkt stéttarfélag sem er búið að standa vörð um íslenska flugfreyjustarfið í yfir 60 ár,“ bætir Berglind við.
María Margrét Jóhannsdóttir, samskiptastjóri Play, greindi frá þessu í dag og sagðist um leið lítið botna í athugasemd frá Alþýðusambandi Íslands sem send var fjölmiðlum vegna málsins.
Íslenska flugstéttarfélagið hét áður Íslenska flugmannafélagið (ÍFF) og var stéttarfélag flugmanna sem störfuðu hjá WOW air. Flugfreyjur WOW air voru hins vegar allar í Flugfreyjufélagi Íslands. Í sumar var gerð lagabreyting hjá Íslenska flugstéttarfélaginu sem opnaði á þann möguleika að fleiri starfsstéttir innan fluggeirans gætu átt aðild að því.
„Það hefur alveg hvarflað að manni sá grunur að það sé eingöngu til þess að geta þannig stjórnað kaupum og kjörum frá upphafi og búið til sína eigin kjarasamninga. Af hverju ætti fyrirtæki að vera að þessu nema þá til að geta undirboðið þá samninga sem Flugfreyjufélagið er með við sína viðsemjendur?“ spyr Berglind sig.
„Þeir [Play] segjast ætla að starfa samkvæmt íslenskum kjarasamningum en spurningin er hvort þeir ætla að virða sína eigin samninga eða þá samninga sem Flugfreyjufélagið er með,“ bætir hún við.
Spurð hvernig það gangi upp að flugmenn og flugfreyjur séu í sama stéttarfélagi segir hún það vekja spurningar. Hún tekur fram að Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) og Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) hafi verið með aðskilda samninga alveg frá upphafi og alltaf hafi verið samið sérstaklega fyrir hvora stétt fyrir sig.
„En maður vonar auðvitað og hvetur forsvarsmenn og eigendur Play til að virða leikreglur íslensks vinnumarkaðar og virða þau kaup og kjör og kjarasamninga sem fyrir eru og vera þannig frá upphafi sanngjarnt og heiðarlegt fyrirtæki sem Íslendingar geta verið stoltir af,“ bætir hún við.
Hún segist ekkert hafa heyrt frá eða verið í sambandi við forsvarsmenn Play eða Íslenska flugstéttarfélagsins en viðurkennir að það þurfi að bæta úr því.
María Margrét Jóhannsdóttir, samskiptastjóri Play, segir flugfélagið með undirritaða og samþykkta kjarasamninga við hið íslenska flugstéttarfélag sem það telur að almenn sátt muni ríkja um. Markmiðið sé að gera Play að eftirsóttum vinnustað og sanngjarnir kjarasamningar séu hluti af markmiðinu.