Umhverfismál eru farin að spila stóra rullu í rekstri Húsasmiðjunnar og nú er svo komið að rúmlega 600 vörur á vef fyrirtækisins eru merktar með umhverfismerkingum, eins og Svansmerkinu, Bláa englinum eða Evrópublóminu. Forstjórinn leggur sjálfur sitt af mörkum til umhverfisins í gegnum hjólreiðar.
Viðtalið fer fram í nýjum húsakynnum Húsasmiðjunnar við Kjalarvog í Reykjavík. Á neðri hæðinni er sérstök fagmannaverslun Húsasmiðjunnar til húsa, en á efri hæðinni eru skrifstofurnar. „Við fluttum hingað inn fyrir tveimur árum. Við vorum í 1.700 fermetra skrifstofuhúsnæði en erum núna í 800 fermetrum, og það fer mjög vel um okkur í nútímalegu húsnæði.“
Hann segir að fagmannaverslunin sé eins nálægt því og hægt er að komast að vera hreinræktuð Bygma-verslun. „Bygma er að 90% hluta fagmannaverslun, en hefðbundnu Húsamiðju- og Blómavalsverslanir okkar eru mun mýkri ef svo má að orði komast,“ segir Árni.
Auk þess sem Húsasmiðjan og Blómaval eru rekin á sömu kennitölu, þá er Ískraft, sérverslun sem er í hópi leiðandi fyrirtækja í sölu raflagna og lýsingarbúnaðar til rafverktaka, rafvirkja, orku- og iðnfyrirtækja, einnig rekin á sömu kennitölu. Hún er þó aðskilin frá hinum verslununum.
Árni hefur verið forstjóri Húsasmiðjunnar í rúm sex ár og segir að starfið sé jafn skemmtilegt nú og fyrst þegar hann tók við því. „Þetta er örugglega með fjölbreyttari störfum sem hægt er að vera í. Starfsemin er svo breið. Húsasmiðjan þjónar bæði fagmönnum og einstaklingum og Ískraft þjónar að 95% hluta fagmönnum. Svo er Blómaval í mjög árstíðaskiptum rekstri þar sem mest er að gerast í maí og júní og svo í nóvember og desember. Í þessu starfi eru engir tveir dagar eins.“
Árna verður hugsað til þess tíma þegar hann tók við fyrirtækinu. Þá var hart í ári, enda segir það sig sjálft, eins og hann nefnir, að þegar byggingarframkvæmdir höfðu verið meira og minna í frosti í samfélaginu, eins og raunin var árið 2013, þá var minna keypt af byggingarvörum. „Þegar ég byrjaði var verið að hefja byggingu á rúmum sjö hundruð íbúðum það ár hér á landinu í samanburði við rúmlega þrjú þúsund íbúðir á árunum fyrir hrun. Núna er verið að klára um tvö þúsund íbúðir á ári, og sex þúsund íbúðir eru í byggingu.“
Ítarlegt viðtal við Árna má lesa á miðopnu ViðskiptaMoggans í dag.