Hagnaður veitingahúsa á Íslandi dróst saman um 67% milli áranna 2017 og 2018. Á þetta bendir dr. Gunnar Gunnarsson, forstöðumaður greiningar og ráðgjafar hjá Creditinfo í samtali í Viðskiptapúlsinum, hlaðvarpi ViðskiptaMoggans.
„Það eru tveir þriðju hlutar af hagnaði í geiranum horfinn,“ segir Gunnar.
Hann bendir sömuleiðis á að þeir veitingastaðir sem vermt hafa lista yfir framúrskarandi fyrirtæki á síðustu árum standi betur að vígi en aðrir, nú þegar niðursveifla hefur orðið í greininni.
„Ef maður skoðar veitingastaðina sem eru á listanum þá hefur rekstur þeirra verið tiltölulega stöðugur 2016, 2017 og 2018. Þar er ekki augljóst að það bjáti eitthvað á.“
Þann 23. október kynnti Creditinfo nýjan lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki árið 2019. Þau voru 874 en frá þeim tíma hafa fleiri bæst við og eru þau nú 887.
ítarlegt viðtal við Gunnar má nálgast í spilaranum hér að neðan en Viðskiptapúlsinn má einnig nálgast á helstu hlaðvarpsveitum, m.a. hjá Apple og Spotify.