Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) telja brýnt að sett verði reglugerð um bann við selveiðum eins og Hafrannsóknastofnun hefur lagt til vegna fækkunar í selastofnum við landið.
Í umsögn SFS um reglugerð sjávarútvegsráðuneytisins á samráðsgátt stjórnvalda er meðal annars vitnað til lagakrafna í Bandaríkjunum um lágmörkun meðafla sjávarspendýra í veiðum sem afla sjávarafurða sem flytja skal inn á Bandaríkjamarkað.
Miklir útflutningshagsmunir sjávarafurða séu í húfi vegna vottunarkrafna um takmörkun meðafla við fiskveiðar þar sem mat á stofnstærð og stöðu stofna komi mikið við sögu. „Viðbúið er að slíkar kröfur verði útbreiddari með tímanum í ljósi tíðarandans,“ segir í umsögn SFS. Ennfremur segir þar að líta megi svo á að bann við veiðum styðjist við gild náttúruverndarsjónarmið.
Kristján Þórarinsson, stofnvistfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, segir að umræða um sjávarspendýr sem meðafla hafi verið talsverð í Bandaríkjunum síðustu ár. Upphafið megi rekja aftur til ársins 1972 er sett voru svokölluð sjávarspendýralög (US Marine Mammal Protection Act). Árið 2016 hafi sérstakt innflutningsákvæði verið virkjað, sem setur öðrum ríkjum þau skilyrði að þau setji sér sömu eða sambærilegar reglur við veiðarnar og gert er í Bandaríkjunum. Þetta ákvæði kemur að fullu til framkvæmda í ársbyrjun 2022.
Í því felst að upprunalönd sjávarafurða sem fluttar eru til Bandaríkjanna verða að vera með sömu eða sambærilegar reglur og Bandaríkin um verndun sjávarspendýra við veiðar eða fiskeldi til að fá aðgang að Bandaríkjamarkaði.
Nánar má lesa um þetta í Morgunblaðinu í dag.