Verður frábær vinnustaður

Arnar Már Magnússon, forstjóri, Bogi Guðmundsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs, og Sveinn …
Arnar Már Magnússon, forstjóri, Bogi Guðmundsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs, og Sveinn Ingi Steinþórsson, fjármálastjóri flugfélagsins. Eggert Jóhannesson

Forsvarsmenn flugfélagsins Play segja félagið vera tilbúið til flugs og að áætlaður vöxtur félagsins á næstu árum sé hóflegur í ljósi þess að félagið hyggst starfa með eigið flugrekstrarleyfi frá fyrsta degi. Að þeirra sögn er grunnfjármögnun félagsins vel yfir 40 milljónir evra, um 5,5 milljarðar króna. Ekki þarf að sækja þær 12 milljónir evra, um 1,7 milljarða króna, sem eyrnamerktar eru fyrir 50% hlutafjár í félaginu, til þess að tryggja fjármagn frá breska fjárfestingasjóðnum Athene Capital þar sem nægt fjármagn er í höfn.

Það var niðamyrkur og grenjandi rigning er blaðamaður mætti í höfuðstöðvar flugfélagsins Play að morgni dags í vikunni. Segja má að veðrið hafi verið í hrópandi mótsögn við andrúmsloftið innan dyra hjá flugfélaginu sem búið er að leggja undir sig þriðju hæðina í húsnæði við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði. Þar stóð fólk vel stemmt við kaffivélina eftir kynningu félagsins í síðustu viku sem vakti mikla athygli. Spennan var einkum áþreifanleg þar sem vonast er til þess að flug geti hafist í desember hjá félaginu. Gríðarlegur áhugi er á Play. 2.500 manns hafa sótt um vinnu og 90% þeirra sem heimsækja vefsíðu félagsins skrá sig á póstlista sem nú þegar telur tæplega 40.000 manns. Eftir stutt spjall við nokkra starfsmenn félagsins tóku tveir stofnendur félagsins af fjórum á móti mér, þeir Arnar Már Magnússon forstjóri og Sveinn Ingi Steinþórsson fjármálastjóri, sem báðir störfuðu áður hjá WOW air, og fengum við okkur sæti inni í fundarherbergi. Bogi Guðmundsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs, tafðist í morgunumferðinni og mætti skömmu síðar en fjórði stofnandinn, Þóroddur Ari Þóroddsson, var fjarri góðu gamni og staddur í Lundúnum.

Flugfélagið Play, eða Fly Play, hefur skiljanlega verið mikið í umræðunni frá því að félagið sýndi á spilin í síðustu viku en það sem færri vita er að þeir félagar létu Samgöngustofu vita strax í apríl, innan við mánuði frá því að WOW air varð gjaldþrota að þeir hefðu hug á því að stofna nýtt flugfélag. Að sögn Arnars hefur vinnan undanfarna mánuði að mestu tengst umsókn félagsins um flugrekstrarleyfi sem er nú á lokastigi.

Flugfélagið var kynnt með pompi og prakt í síðustu viku.
Flugfélagið var kynnt með pompi og prakt í síðustu viku. Haraldur Jónasson/Hari

„Það var ekkert launungarmál að WOW air átti í fjárhagserfiðleikum síðasta veturinn sem þýddi það að við vorum í mjög nánu samstarfi við Samgöngustofu. Á þeim tíma skapaðist gríðarlegt traust á milli aðila. Flugrekstrarleyfi byggist upp í raun á einum aðila sem er ábyrgur gagnvart Samgöngustofu. Svo ertu með aðila fyrir neðan sem ber ábyrgð á hverju sviði; flugrekstrarsviði, flugafgreiðslu, viðhaldsmálum, öryggismálum, gæðamálum og þjálfunarmálum. Þetta ferli var unnið rosalega vel. Hluti af ástæðunni fyrir því að WOW hélt leyfinu þetta lengi var að gæðamálin voru ofar öllu. Þannig að samvinnan hófst á góðum stað og við létum í raun Samgöngustofu vita strax í apríl að við hefðum hug á því að stofna nýtt flugfélag. Núverandi umsókn er byggð á þekkingu þess fólks sem vann ótrúlega flott starf hjá WOW air sem í raun auðveldar allt ferlið,“ segir Arnar í samtali við ViðskiptaMoggann.

Samanburður við félög í Evrópu

Eflaust velta margir því fyrir sér hvers vegna Play ætti að geta lifað af samkeppni við Icelandair og öll þau félög sem fljúga til Íslands. Það hefur engu félagi hingað til tekist. Forráðamenn Play eru aftur á móti fullir sjálfstrausts og telja sig hafa náð að vinda ofan af ýmsum af þeim kostnaði sem gerði WOW air erfitt fyrir.

„Það er gríðarleg flugrekstrarþekking innan þessa fyrirtækis. Við vitum hvað er markaðsverð og hvað ekki, höfum unnið mikið í ýmsum samningum og átt í góðu sambandi við stóra hagaðila og birgja. Við leggjum mikið upp úr kostnaðarstrúktúrnum. Ef þú ætlar að lifa af samkeppnina þarftu að vera með lægri kostnaðarstrúktúr og besta verðið,“ segir Arnar áður en Sveinn tekur við.

„Við lögðum upp úr því að bera okkur saman við félög í Evrópu en ekki hvernig kostnaðarstrúktúr félaga hér heima er. Við erum í samkeppni við umheiminn. Þetta var mikil vinna og við fórum í útboð sem var opið öllum. Við höfum úthýst ýmsu sem WOW hafði tekið til sín og haft innanhúss sem fylgdi gríðarleg yfirbygging,“ segir Sveinn.

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, gagnrýndi áætlanir félagsins í síðustu viku og vísaði til upplýsinga úr fjárfestingarkynningu félagsins þar sem m.a. segir að 27-37% kostnaðarlækkun hafi náðst í samningum við flugmenn og flugliða, miðað við þá samninga sem WOW air hafði á sínum tíma, og þá var einnig talað um að betri nýting á áhöfnum myndi nást.

Að sögn Arnars verður Play frábær vinnustaður. „EASA (e. European Aviation Safety Agency) sér um regluverkið í flugi í Evrópu. Af öllum atvinnugreinum í heiminum er eitt mesta regluverkið í kringum flugrekstur sem þýðir einfaldlega það að við vinnum samkvæmt reglugerðum. Hér munu allir hafa það mjög gott og þetta verður frábær vinnustaður. Við hvetjum fólk til þess að sjá hvað verður í boði. Þetta var unnið í samstarfi við ÍFF og þar er bara jákvæðni að finna beggja vegna borðsins,“ segir Arnar.

Arnar Már Magnússon, forstjóri hins nýja flugfélags, segirað Play verði …
Arnar Már Magnússon, forstjóri hins nýja flugfélags, segirað Play verði frábær vinnustaður. Haraldur Jónasson/Hari

„Við erum íslenskt félag með bækistöðvar á Íslandi og í grunninn með íslenskt vinnuafl. Aftur á móti eru allir velkomnir til okkar. Við gerum ekki greinarmun á þjóðerni. En við erum íslenskt félag og erum komin til þess að vera hér. Það hjálpar ekki bara okkur heldur einnig ferðaþjónustunni í heild sinni. Það er mikilvægt að hafa lággjaldaflugfélag á Íslandi. Það styður við uppgang ferðaþjónustunnar sem er okkur mjög mikilvæg og styður einnig við landsbyggðina. Ferðamönnum til Íslands hefur fækkað og það er svo sannarlega rými fyrir svona félag,“ segir Arnar.

Fengu sterkari sjóð sem bakhjarl

Talið berst nú að fjármögnun félagsins sem ekki var kynnt mjög ítarlega er félagið kynnti sig til leiks fyrir rúmri viku. Í dag fullyrða stofnendurnir að ekki sé raunveruleg hætta á því ekki muni nást að safna nægu fé til þess að hefja flugrekstur. 80% af fjármögnuninni kemur erlendis frá, eða 40 milljónir evra, um 5,5 milljarðar króna, í formi víkjandi láns frá breska fagfjárfestasjóðnum Athene Capital, sem er að sögn Boga, ígildi hlutafjár, en sjóðurinn á jafnframt kauprétt á 10% í félaginu. 20% fjármagnsins, 12 milljónir evra, eða um 1,7 milljarðar króna, munu koma frá innlendum fjárfestum fyrir 50% hlut í félaginu en stofnendurnir fara með hin 50% ásamt nokkrum öðrum starfsmönnum. Íslensk verðbréf leiða þá hlutafjáröflun sem er, að sögn stofnenda Play, á lokametrunum. Því er það fjármagn sem gert er ráð fyrir að setja í félagið um 7,2 milljarðar íslenskra króna.

„Grunnfjármögnunin er vel yfir 40 milljónir evra og gott betur en það. Og svo það sé alveg á hreinu þá þarf ekki 52 milljón evrur til þess að stofna nýtt flugfélag. Við erum að gera það sem hefur ekki verið gert áður; að stofna flugfélag með 7 milljarða í reiðufé,“ segir Arnar.

Að sögn Boga er Athene Capital stórtækur fagfjárfestasjóður. „Þeir hafa gríðarlega fjármuni á bak við sig. Þeir hafa fjárfesta sem fjárfesta í heildarpakkanum hjá þeim og svo eru þeir með fjárfestingaheimildir sem þeir sækja um fyrir hvert verkefni. Þetta er í raun bara ein einstök fjárfesting af tugum fjárfestinga sem þeir eru í,“ segir Bogi áður en Sveinn tekur við.

Grænt ljós alls staðar

„Við fórum í gegnum víðtæka áreiðanleikakönnun hjá þeim þar sem þeir greindu einnig íslenska flugmarkaðinn og markaðinn yfir hafið og við fengum grænt ljós alls staðar,“ segir Sveinn.

Að sögn þeirra félaga er írski fjárfestingasjóðurinn Avianta Capital, sem er í eigu dóttur eins of stofnendum lággjaldaflugfélagarisans Ryanair, kominn út af borðinu en hann var nefndur í sumar sem bakhjarl verkefnisins á þeim tíma.

Flugfélagið Play.
Flugfélagið Play. Haraldur Jónasson/Hari

„Við fengum flottari aðkomu og sterkari sjóð á bak við okkur,“ segir Arnar.

Að sögn stofnendanna er framtakssjóður á vegum Íslenskra verðbréfa, TFII, sem hyggst fjárfesta 10% hið minnsta af fyrrnefndum 12 milljónum evra. Spurðir um tímarammann segir Arnar að það sem þarf til þess að tryggja fyrrnefnda 40 milljóna fjármögnun frá Athene hafi nú þegar náðst.

„Við þurfum ekki 12 milljónirnar til þess að tryggja þessar 40 milljónir. Við erum komnir með nóg til þess að tryggja þær,“ segir Arnar en Bogi bætir því við að þeir séu samt sem áður langt á veg komnir með það að klára 52 milljóna fjármögnunina.

„Annars hefðum við aldrei komið fram,“ segir Arnar og heldur áfram.

„Það er ótrúlegur áhugi á þessu verkefni. Við höfum séð hvað allir Íslendingar vilja þetta mikið. Það hafa 2.500 manns sótt um vinnu og tæplega 40 þúsund manns skráð sig á póstlista, sem eru yfir 10% þjóðarinnar,“ segir Arnar og Sveinn bætir því við að 90% af þeim sem heimsækja heimasíðu félagsins skrái sig á póstlistann.

Spurður hvort raunveruleg hætta sé á því að ekki muni takast að safna nægu fé til þess að hefja rekstur flugfélagsins segir Arnar svo ekki vera. Bogi tekur í sama streng. „Nei, það er engin hætta á því. Það er ekki bara innlendur áhugi á verkefninu heldur fór þessi fjölmiðlaviðburður í síðustu viku út um allan heim. Það eru risaaðilar sem vilja vinna með okkur,“ segir Bogi.

Viðtalið við forsvarsmenn Play má lesa í heild sinni í ViðskiptaMogganum í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK