Ný stjórn var kjörin á hluthafafundi Símans fyrr í dag, en sex voru í framboði um fimm sæti í stjórninni. Hollenski fjárfestirinn Bertrand Kan, sem á 0,34% hlut í Símanum, var felldur í kjörinu og náði ekki kjöri.
Ljóst var fyrir kosninguna að Sylvía Kristín Ólafsdóttir og Helga Valfells myndu halda sætum sínum vegna kynjakvóta, en fjórir karlmenn börðust svo um sætin þrjú sem eftir voru. Það voru auk Bertrands þeir Bjarni Þorvarðarson, Jón Sigurðsson og Kolbeinn Árnason.
Bjarni er forstjóri lyfjaframleiðandans Coripharma í Hafnarfirði, Jón er stjórnarformaður fjárfestingafélagsins Stoða sem á um 14% í Símanum og Kolbeinn er lögmaður og eigandi Dranga lögmanna. Hann var áður framkvæmdastjóri SFS, í stjórn SA og aðallögfræðingur Kaupþings frá 2008 til 2013.
Helga er stofnandi og framkvæmdastjóri nýsköpunarsjóðsins Crowberry capital og varaformaður stjórnar Íslandsbanka. Hún var áður framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Sylvía er forstöðumaður rekstrarsviðs Icelandair og var áður forstöðumaður tekjustýringar og jarðvarmadeildar Landsvirkjunar. Þar áður var hún í fimm ár hjá Amazon, meðal annars yfirmaður viðskiptagreindar og vörustjóri í Kindle-deild fyrirtækisins.