Félagið K2B, sem er í eigu hjónanna Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur og Guðmundar Þórðarsonar, hefur selt 7,25% hlut sinn í tryggingafélaginu VÍS, en þau voru þriðji stærsti hluthafi félagsins. Samtals seldu þau 141.650.000 bréf á genginu 10,96 eða fyrir 1,55 milljarða.
Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar vegna viðskipta innherja, en Svanhildur er stjórnarmaður í félaginu.
Samkvæmt hluthafalista VÍS sem uppfærður var 30. september var Lífeyrissjóður verslunarmanna stærsti hluthafinn með 8,13% hlut í félaginu og vogunarsjóðurinn Landsdowne partners næst stærstur með 7,69%.
Svanhildur var áður stjórnarformaður VÍS en sagði af sér í kjölfar rannsóknar embættis héraðssaksóknara á kaupum hjónanna og fleiri fjárfesta á Skeljungi árið 2008. Var meðal annars ráðist í handtökur og húsleitir vegna rannsóknarinnar. Hafði Íslandsbanki kært viðskiptin til embættisins. Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfestir í samtali við mbl.is að málið sé enn til rannsóknar og þá hafi átt sér stað yfirheyrslur í síðasta mánuði. Hins vegar hafi engin ákvörðun verið tekin um ákærur í málinu.
Uppfært: Í upphaflegri frétt sagði að gengi bréfanna í viðskiptunum hefði verið 11 krónur á hlut. VÍS sendi á tólfta tímanum frá sér leiðréttingu og kom þar fram að gengið hefði verið 10,96 krónur. Fréttin hefur verið uppfærð í samræmi við það.