Tekjutap Landsvirkjunar á fyrstu níu mánuðum ársins, í kjölfar þess að Rio Tinto í Straumsvík þurfti að loka þriðja kerskála sínum í júlí og fram á haust, nam 10 milljónum Bandaríkjadala, eða 1,24 milljörðum íslenskra króna. Þetta kemur fram í ársfjórðungsuppgjöri Landsvirkjunar og segir þar að það sjái þess merki í rekstrarniðurstöðum fjórðungsins.
Ljósbogi myndaðist í kerskálanum 21. júlí, en þar eru 160 ker. Af öryggisástæðum var slökkt á skálanum, en endurræsing á fyrstu kerjunum hófst í lok ágústmánaðar.
Um þriðjungur framleiðslu Rio Tinto á Íslandi fer fram í skálanum, en í ársuppgjöri félagsins kom fram að framleiðslan í Straumsvík myndi dragast saman um 21 þúsund tonn í ár vegna atviksins. Til samanburðar var framleiðslugetan áætluð 213 þúsund tonn í ár.