Uber mun ekki fá nýtt starfsleyfi í Lundúnum, samkvæmt ákvörðun samgönguyfirvalda þar í borg. Því gæti farið svo að Uber þyrfti að hætta starfsemi í borginni eftir þrjár vikur, þegar 21 dags frestur sem fyrirtækið hefur til þess að áfrýja þessari ákvörðun rennur út.
Farveitufyrirtækið missti starfsleyfi sitt í borginni árið 2017 vegna athugasemda yfirvalda við öryggismál fyrirtækisins. Uber áfrýjaði og fékk í kjölfarið útgefið 15 mánaða tímabundið starfsleyfi og tveggja mánaða framlengingu til viðbótar í september.
Samgönguyfirvöld borgarinnar (Transport for London) telja að Uber hafi ekki gert nægilega miklar úrbætur á starfsemi sinni til þess að uppfylla öryggisskilyrði yfirvalda.
Helen Chapman, yfirmaður deildarinnar sem sér um leyfisveitingar, segir að þrátt fyrir að einhverjar umbætur hafi verið gerðar hjá fyrirtækinu sé það óásættanlegt að Uber hafi leyft farþegum að fara inn í leigubíla með bílstjórum sem mögulega séu ótryggðir.
Í frétt BBC um þessa ákvörðun kemur fram að um 45.000 bílstjórar starfi fyrir Uber í Lundúnum og ef fyrirtækið fái ekki áframhaldandi starfsleyfi gætu þeir allir misst vinnuna. Þó verði að telja líklegt að margir þeirra geti farið að aka fyrir einhver önnur farveitufyrirtæki, sem starfa í borginni.