Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, mbl.is og K100, hefur í dag sagt upp 15 starfsmönnum og dreifast uppsagnirnar á margar deildir fyrirtækisins. Fundi með starfsmönnum lauk fyrir skömmu en þar kynntu yfirmenn aðgerðirnar og þær ástæður sem að baki búa.
Ástæður uppsagnanna eru að sögn Haraldar Johannessen, framkvæmdastjóra Árvakurs, versnandi efnahagsástand hér á landi og langvarandi erfið rekstrarskilyrði fjölmiðla, innlendra ekki síður en erlendra. „Auglýsingamarkaðurinn hér á landi hefur í um hálft annað ár verið afar erfiður og kemur þar margt til. Ríkisútvarpið hefur sótt harðar inn á þann markað en auk þess hefur almennt efnahagsástand farið versnandi og fyrirtæki halda að sér höndum þegar kemur að auglýsingum, en auglýsingar eru sem kunnugt er annar helsti tekjupóstur fjölmiðla eins og Árvakurs. Auk þessa höfum við mátt búa við verkfallsaðgerðir sem ekki sér fyrir endann á og hafa komið mjög illa við þennan fjölmiðil eins og aðra sem þær hafa beinst að,“ segir Haraldur, og bætir við að aðgerðir eins og þær sem ráðist hafi verið í nú séu öllum þungbærar sem að þeim koma en einkum sé hugur allra þó vitaskuld hjá samstarfsfólkinu sem þurfi að kveðja í dag.
„Uppsagnirnar í dag snúast ekki um að fólk hafi ekki staðið sig í starfi heldur einfaldlega um það að fyrirtækið verður að ganga mjög langt í að hagræða til að koma rekstrinum í viðunandi horf,“ segir Haraldur og minnir á að fyrirtækið hafi verið rekið með verulegu tapi í fyrra. Gripið hafi verið til umfangsmikilla aðgerða í fyrra og fyrr á þessu ári til að ná jafnvægi í rekstrinum en það hafi ekki dugað til þó að staðan sé nú betri en á sama tíma í fyrra. „Við urðum að grípa til þessara aðgerða nú til að koma rekstrinum í rétt horf og vonumst til að þær dugi og að reksturinn verði ekki fyrir frekari skakkaföllum,“ segir Haraldur Johannessen.