Flugfélagið Play birti mynd af starfsmannahópi flugfélagsins á Facebook í dag. Þar virðast allir vera hressir, þrátt fyrir að í dag hafi verið greint frá því í fjölmiðlum að starfsmenn hafi ekki enn fengið greidd laun fyrir nóvembermánuð.
María Margrét Jóhannsdóttir samskiptafulltrúi Play sagði við mbl.is fyrr í dag að starfsmenn hefðu verið upplýstir um stöðu mála og allir væru reiðubúnir að halda áfram að leggja sitt af mörkum til þess að Play fari í loftið.
„Við viljum öll sjá flugfélagið verða að veruleika og vonumst til þess að geta lokið þessum málum sem fyrst,“ sagði María Margrét.
Forsvarsmenn félagsins segja að lokafjármögnun þess gangi vel og sé á lokastigi. Flugfélagið er að reyna að sækja 1,7 milljarða króna frá innlendum fjárfestum, en fram hefur komið að félagið hafi þegar tryggt sér 5,5 milljarða króna frá breska sjóðnum Athene Capital. Ætlunin er að hefja rekstur með yfir sjö milljarða í reiðufé.
Félagið segist gera ráð fyrir því að velta félagsins á fyrsta rekstrarárinu verði um 20 milljarðar króna og stöðugildin 270 í lok árs 2020. Þá segja forsvarsmenn Play að þeir geri ráð fyrir því að afleidd störf tengd starfsemi félagsins verði 700 hið minnsta.
Áætlanir gera ráð fyrir að flugfélagið flytji 900 þúsund farþega á fyrsta rekstrarárinu og þar af 200 þúsund ferðamenn beint til Íslands. Bendir flugfélagið á það, í orðsendingu til mbl.is, að hver ferðamaður eyði að meðaltali 143 þúsund krónum meðan á dvöl hans stendur og því gætu 200 þúsund ferðamenn á vegum Play skilað 28 milljörðum króna í þjóðarbúið.