Stærsta einstaka húsfélag landsins, með flestum íbúðum/einingum, hefur verið stofnað af fyrirtækinu Eignaumsjón hf. fyrir framkvæmdafélagið Hlíðarfót ehf. Hlíðarfótur er með 191 íbúð í smíðum í 11 samtengdum byggingum á F-reit á Hlíðarenda undir merkinu 102reykjavik.is. Í tilkynningu frá Eignaumsjón segir að tilgangur húsfélagsins sé að annast rekstur sameignar fjöleignarhússins á F-reitnum og verður það rekið í deildaskiptu heildarfélagi sem nær til allra 10 matshluta hússins, þar á meðal stigaganga, ytra byrðis hússins, sameiginlegrar bílageymslu og lóðar. „Við teljum það mikinn kost að selja og afhenda nýjum eigendum íbúðirnar með húsfélagsmálin í föstum skorðum frá byrjun,“ segir
Sigurður Lárus Hólm, framkvæmdastjóri Hlíðarfótar, í tilkynningunni.
Þjónusta Eignaumsjónar við húsfélagið felur í sér hefðbundna fjármála-, funda- og rekstrarþjónustu ásamt húsumsjón, sem er nýleg viðbótarþjónusta hjá Eignaumsjón fyrir rekstrar- og húsfélög. Hún felst í reglubundnu eftirliti með umhirðu og ástandi sameignar –
innanhúss sem utan.
Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar, segir í samtali við Morgunblaðið að fyrirtækið sé með um 70% hlutdeild á markaðnum. Það hafi verið stofnað árið 2001 og starfi um allt land. Hann segir að sú breyting hafi orðið á starfsemi Eignaumsjónar fyrr á þessu ári að félagið hafi tekið við rekstri Húsastoðar, sem veiti svipaða þjónustu. „Það eru meira en 500 hús- og rekstrarfélög með hátt í 13 þúsund íbúðum/eignum í daglegri þjónustu hjá skrifstofu félaganna tveggja á Suðurlandsbraut 30 í Reykjavík,“ segir Daníel. „Umsjón með húsfélögum um íbúðarhúsnæði er um 80% af okkar starfsemi en um 20% starfseminnar snúa að atvinnuhúsnæði.“
Meðal annarra eigna sem félagið er með í viðskiptum eru ný fjölbýlishús, eins og þau sem eru á Efstaleitisreitnum, í Skuggahverfinu og á Ásbrú í Reykjanesbæ. Þá hafi íbúðafélagið Bjarg nýverið gert samkomulag við Eignaumsjón um að hafa umsjón með þeim íbúafélögum sem í þeirra húsum verða starfrækt. „Áhersla okkar til framtíðar er að mæta vaxandi þörfum eigenda fasteigna með góðri þjónustu og skilvirkum lausnum sem byggjast á gagnsæi upplýsinga og umhverfisvænum gildum,“ segir Daníel en 23 starfsmenn starfa nú hjá félaginu, auk fjölda verktaka sem vinna hlutastörf.