Hyatt-hótel í gamla sjónvarpshúsinu

Gamla sjónvarpshúsið við Laugaveg.
Gamla sjónvarpshúsið við Laugaveg. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Alþjóðlega hótelkeðjan Hyatt og Reitir fasteignafélag hafa undirritað sérleyfissamning um rekstur Hyatt Centric-hótels á Laugavegi 176. Fasteignin, sem um áratuga skeið hýsti starfsemi Ríkissjónvarpsins, verður endurbyggð og stækkuð þannig að hún rúmi 169 herbergi, fundarsali, veitingastað, heilsurækt og almenningsrými.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reitum. Þar segir enn fremur að fasteignafélagið stefni að því að halda eigninni í eignasafni sínu til lengri tíma en selja rekstur hótelsins til traustra rekstraraðila. Gert er ráð fyrir því að hótelið verði opnað 2022.

Um er að ræða fyrsta hótelið á Norðurlöndunum sem er opnað undir vörumerki Hyatt-keðjunnar og sjöunda Hyatt Centric-hótelið í Evrópu en vörumerkið flokkast sem lífsstílshótel.

„Síðastliðið ár höfum við lagt mikla vinnu í að kynna okkur norræna markaðinn og kynnast þróunaraðilanum og fasteignaeigandanum á Íslandi. Innkoma okkar á markaðinn með Hyatt Centric Reykjavík er því mikilvægur áfangi fyrir okkur. Opnunin ber ekki eingöngu vitni um hinn mikla vöxt Hyatt þegar kemur að gæðahótelum í Evrópu heldur styður hún einnig áform okkar um að hasla okkur völl á mörkuðum þar sem svæðisbundnir aðilar ráða ríkjum,“ er haft eftir Peter Norman, framkvæmdastjóra þróunar hjá Hyatt.

„Það er mjög ánægjulegt að geta tilkynnt opnun fyrsta Hyatt-hótelsins á Íslandi. Vörumerkið er rótgróið og þekkt um allan heim og við sjáum mikil tækifæri fólgin í því að opna hótel í samstarfi við slíkan aðila,“ er meðal annars haft eftir Guðjóni Auðunssyni, forstjóra Reita.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK