Bæði Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins hafi lýst yfir vonbrigðum með ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans, en í morgun var greint frá því að stýrivextir bankans yrðu áfram óbreyttir í 3%.
Í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins segir að samtökin telji ákvörðunina misráðna í ljósi hagtalna sem sýni dýpkandi lægð í efnahagslífinu, fækkun starfa og aukið atvinnuleysi.
Í tilkynningu á vef Samtaka iðnaðarins segir að ákvörðunin sé vonbrigði og að samtökin telji svigrúm til að lækka vexti frekar og „milda þannig efnahagssamdráttinn“. Telja samtökin mikilvægt að örva hagkerfið til vaxtar með því að hvetja til nýrra fjárfestinga, meðal annars með nægu lánsframboði með hagstæðum vaxtakjörum.
Bankinn hafði áður lækkað stýrivexti sína um 1,5 prósentur í síðustu fimm vaxtaákvörðunum sínum.