Ríflega 43 þúsund manns störfuðu í iðnaði hér á landi á síðasta ári eða ríflega einn af hverjum fimm. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins sem ber heitið „Iðnaðarstörf í hættu“ en fram kemur í fréttatilkynningu frá samtökunum að tölurnar undirstriki umfang iðnaðarins á íslenskum vinnumarkaði og mikilvægan þátt greinarinnar í gangverki íslenska hagkerfisins.
Hins vegar sæti það nokkrum tíðindum í ljósi umfangs iðnaðarins að fyrirtæki í helstu greinum iðnaðarins séu að fækka starfsfólki. Það sýni að samdrátturinn í hagkerfinu um þessar mundir sé að koma fram í iðnaði. Þróunin undirstriki hvað stöðugt starfsumhverfi sé mikilvægur þáttur fyrir samkeppnishæfni iðnaðar. Verkefni á sviði peningamála og opinberra fjármála séu að milda niðursveifluna.
„Örva má fjárfestingu og hagkerfið til vaxtar m.a. með lækkun stýrivaxta, góðu aðgengi að fjármagni, auknum innviðafjárfestingum og lækkun á álögum á fyrirtæki. Án nægjanlegra aðgerða á sviði hagstjórnar er hætta á því að niðursveiflan í hagkerfinu verði dýpri og meira langvarandi með alvarlegum afleiðingum, ekki bara fyrir iðnaðinn heldur alla atvinnustarfsemi í landinu og hag heimilanna.“