Verð hlutabréfa í Icelandair Group tók dýfu í fyrstu viðskiptum dagsins í Kauphöllinni og var verð á hvern hlut 7,4 krónur, um 4,5% lægra en það var við opnun markaða í morgun, eftir 36 milljóna króna viðskipti.
Síðan þá hefur verðið þokast upp á við og stendur lækkun dagsins nú í 3,8%.
Flugfélagið tilkynnti í morgun að það gerði ekki ráð fyrir Boeing 737 MAX-vélum sínum í flugáætlun sinni fyrr en í maí á næsta ári.
Icelandair Group hefur 9 MAX-vélar í flota sínum sem stendur og til stendur að taka við fimm vélum af þeirri tegund til viðbótar á nýju ári. Flugvélaframleiðandinn Boeing tilkynnti í gærkvöldi að framleiðsla vélanna yrði stöðvuð tímabundið í janúar.
Hlutabréfaverð Icelandair hefur sveiflast mikið undanfarnar vikur. Um og eftir miðjan október fór verð á hvern hlut niður í 5,5 krónur en síðan hækkaði verðið að nýju og var 8,68 þann 10. þessa mánaðar.