Óvissa á mörkuðum vegna ákvörðunar Boeing

Ekkert hefur verið gefið upp um það hve lengi framleiðslustöðvunin …
Ekkert hefur verið gefið upp um það hve lengi framleiðslustöðvunin í verksmiðjum Boeing í Renton mun vara og eykur það enn á óvissu fyrirtækja og fjárfesta. AFP

Ákvörðun Boeing um að stöðva framleiðslu á 737 MAX-vélum sínum tímabundið hefur haft mikil áhrif á hlutabréfaverð í Evrópu í dag, enda nær aðfangakeðja Boeing til ýmissa evrópskra stórfyrirtækja sem smíða vélar og aðra íhluti fyrir bandaríska stórfyrirtækið.

Ekkert hefur verið gefið upp um það hve lengi framleiðslustöðvunin mun vara og eykur það enn á óvissu fyrirtækja og fjárfesta.

Stoxx 600, evrópsk vísitala flug- og varnarmála, féll um 1,4% strax í morgun samkvæmt umfjöllun Financial Timesen hefur síðan aðeins rétt úr kútnum. Innan vísitölunnar eru ýmis stórfyrirtæki sem verða fyrir áhrifum af ákvörðun Boeing.

Markaðsvirði franska fyrirtækisins Safran, sem framleiðir hreyfla fyrir Boeing í samstarfi við bandaríska félagið General Electric, dróst saman um u.þ.b. 4% í viðskiptum í kauphöllum Evrópu í morgun. Áætlanir Safran höfðu gert ráð fyrir því að MAX-vélarnar kæmust í loftið fyrir lok þessa árs. Einnig hafa tíðindin frá Boeing haft mikil áhrif á hlutabréf verð breska íhlutafyrirtækisins Senior í Hertfordskíri, sem framleiðir skynjara og annan hátæknibúnað fyrir Boeing. Markaðsvirði félagsins féll um meira en 8% í morgun.

Fjárfestar virðast þannig hafa nokkrar áhyggjur af framleiðslustöðvuninni hjá Boeing, sem snertir fjöldamörg fyrirtæki víða um heim. Hér heima hefur hlutabréfaverð Icelandair tekið dýfu í morgun og skömmu fyrir hádegi nam dagslækkunin 4% í 133 milljón króna viðskiptum.

Boeing haldi áfram að „brenna fé“

Áhrifin á markaðsvirði Boeing hafa einnig verið nokkur, félagið lækkaði um tæp 5% í kauphöllum vestanhafs í gær eftir að óstaðfestar fréttir fóru að kvisast út um fyrirhugaða um framleiðslustöðvun á MAX-vélunum. Greinendur á fjármálamarkaði segja í dag að Boeing muni halda áfram að „brenna fé“ þrátt fyrir framleiðslustoppið.

Reuters-fréttastofan fjallar um þann anga málsins og hefur eftir sérfræðingum fjármálafyrirtækisins JPMorgan að í dag sé álitið að Boeing sé að „brenna“ 2 milljörðum bandaríkjadala í hverjum mánuði vegna kyrrsetningar MAX-vélanna. Það er jafnvirði 245 milljarða íslenskra króna.

JPMorgan býst ekki við því að þetta mikla tap hverfi að fullu þrátt fyrir að framleiðslan á MAX-vélunum verði stöðvuð, þar sem Boeing ætli ekki að segja neinum starfsmönnum upp. Þess í stað reiknar JPMorgan með að mánaðarlegt tap félagsins vegna MAX-vélanna helmingist í framleiðslustoppinu og fari niður í milljarð dollara.

„Við vitum ekki enn hvað Boeing ætlar að gera varðandi framleiðendur sína,“ hefur Reuters svo eftir Richard Aboulafia, sem er yfirmaður í greiningardeild Teal Group.

Aboulafia segir mögulegt að Boeing þurfi að biðja framleiðendur um að hætta að senda sér íhluti í vélarnar, en flugvélaframleiðandinn þurfi þó að hjálpa framleiðslufyrirtækjunum, mögulega greiða þeim bætur, til þess að fyrirtækin geti haldið fólki í vinnu og verið tilbúin að hefja fulla framleiðslu á íhlutum þegar Boeing segir til.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK