Bankinn mun lækka vexti meira ef þörf krefur

Vaxtalækkunarferli Seðlabankans er ekki endilega lokið að mati Ásgeirs Jónssonar, …
Vaxtalækkunarferli Seðlabankans er ekki endilega lokið að mati Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra. mbl.is/Árni Sæberg

 Á föstudag verða fjórir mánuðir liðnir frá því að Ásgeir Jónsson tók við lyklavöldum í Svörtuloftum. Frá þeim tíma hefur peningastefnunefnd Seðlabankans þrívegis lækkað vexti. Þeir eru nú í sögulegu lágmarki en stórar áskoranir bíða nýja bankastjórans. Hagkerfið stendur á krossgötum og Seðlabankinn mun gegna lykilhlutverki í að leiða íslenskt samfélag upp úr niðursveiflu sem nýlega hefur tekið við af sjö ára uppgangi.

Hann tekur sjálfur á móti blaðamanni í anddyri bankans. Formlegheit sem löngum hafa einkennt samskipti við stofnunina eru fokin út í veður og vind. Þau gerðu það ekki í vonskuveðri liðinnar viku. Sennilegra er að Ásgeir Jónsson sem fæddist 1970 sé farinn að setja mark sitt á bankann að þessu leyti eins og ýmsu öðru.

Eftir almennt spjall um landsins gagn og nauðsynjar setjum við okkur í stellingar enda margt sem er nauðsynlegt að bera undir nýjan bankastjóra. En fyrst er rétt að spyrja hvernig staða hagkerfisins horfir við honum nú, þegar hann er horfinn úr starfi fræðimannsins við Háskóla Íslands og orðinn æðsti maður peningamála í landinu.

„Nú hefur tekið að hægja á efnahagsumsvifum. Það hlaut að gerast á einhverjum tímapunkti, enda gengur hagsveiflan upp og niður. Ferðaþjónustan hefur leitt vöxtinn síðustu sjö ár en hefur verið að gefa eftir. Sú þróun hófst raunar áður en WOW varð gjaldþrota og Max-vélar Icelandair voru kyrrsettar. En hækkun gengis krónunnar og launa hefur gert Ísland að dýrum áfangastað sem var farinn að hafa hamlandi áhrif á fjölgun ferðafólks – nokkru áður en flugfélög landsins lentu í hremmingum.

Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri. Árni Sæberg

Hins vegar hefur okkur tekist að vinna betur úr þessum breyttu aðstæðum en margir bjuggust við. Meðaleyðsla hvers ferðamanns hefur aukist mikið. Þótt ferðamennirnir séu færri þá skila þeir hver og einn meiri tekjum inn í landið. Auk þess hefur gengið ágætlega í sjávarútveginum þegar litið er til afurðaverðs.

Á sama tíma höfum við fengið heilbrigða aðlögun í efnahagslífinu. Innflutningur hefur dregist saman og það leiðir til þess að við sjáum enn afgang af vöruskiptum við útlönd. Það skiptir miklu í þeirri viðleitni að halda jafnvægi á gjaldeyrismarkaði.“

Bendir hann á að krónan hafi sýnt styrkleika sinn þegar veðrabrigði urðu í hagkerfinu.

„Seðlabankinn er núna með 800 milljarða gjaldeyrisforða. Það hefur skotið nýrri tiltrú undir krónuna. Við sáum það síðastliðinn vetur þegar kjarasamningar voru opnir og vandræði WOW komu upp að krónan gaf lítið eftir. Botninn hvarf ekki undan gjaldmiðlinum eins og oft hefur gerst hérlendis. En það er margreynt lögmál að þegar tiltrú hverfur á gjaldmiðlum þá reyna allir að hlaupa burt með peningana sína. Það hefur ekki gerst.“

Ásgeir segir einnig að það hafi stuðlað að vörslu stöðugleikans að samningar hafi tekist á almennum vinnumarkaði án þess að hleypa af stað hjaðningavígum og höfrungahlaupi.

„Þetta voru hóflegar hækkanir og þær hafa í raun lagt sitt af mörkum við að viðhalda stöðugleika. Nú sjáum við hilla undir fyrstu niðursveifluna frá seinna stríði sem mun ekki koma niður á kaupmætti almennings. Það stafar af því að við höfum náð tökum á verðbólgunni sem lét aðeins á sér kræla eftir samþykkt samninganna og hóflega gengislækkun. Krónurnar í launaumslögum hafa haldið verðmæti sínu. Það hvernig til tókst í þessu tilliti gerir okkur núna kleift að lækka vexti til að örva hagkerfið og skapa ný störf,“ segir Ásgeir sem aðspurður segir að vaxtalækkunarferlinu þurfi ekki endilega að vera lokið.

Viðtalið má lesa í heild sinni í ViðskiptaMogganum í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka