Gott að vera stuttorður

Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, segir að um biðleik hafi verið að …
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, segir að um biðleik hafi verið að ræða, við síðustu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar. Árni Sæberg

Yfirlýsing peningastefnunefndar við síðustu vaxtaákvörðunartöku í liðinni viku var aðeins 118 orð að lengd og langsamlegasta efnisminnsta yfirlýsingin sem nefndin hefur sent frá sér í þau ellefu ár sem hún hefur starfað. Aðspurður hvort nefndin hafi ekki skýrt ákvörðun sína nægilega vel fyrir markaðnum segir Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, í samtali við ViðskiptaMoggann:

„Nei alls ekki. Það er gott að vera stuttorður. En það verður líka að horfa til þess að það hefur lítið gerst milli funda og við gáfum út Peningamál í nóvember þar sem farið var ítarlega yfir stöðuna. Svo má segja að þessi síðasti vaxtaákvörðunarfundur hafi verið næsta óþarfur í ljósi þess að það eru lítil tíðindi frá síðasta fundi og engar upplýsingar sem þurfti að koma sérstaklega á framfæri. Samkvæmt nýjum Seðlabankalögum mun vaxtaákvörðunarfundum fækka úr átta í sex á næsta ári,“ segir Ásgeir.

Í hinni stuttu yfirlýsingu kemur fram að aðhald peningastefnunefndar hefði ekki breyst frá síðasta fundi. Samt hefur krafan á markaði, bæði í óverðtryggðu og verðtryggðu, hækkað og í mælingum kemur fram að verðbólgan sé að hjaðna, sem jafnframt hefur dregið úr verðbólguvæntingum. Spurður hvort ekki sé beinlínis rangt að halda því fram að taumhaldið hafi breyst segir Ásgeir:

„Það fer eftir því hvernig á það er litið. Verðbólgan var 2,7% í nóvember – við erum næstum komin að markmiði. Það er mjög gott. Það er dálítið langur vegur frá okkar vöxtum og yfir í langtímavexti, einkum verðtryggða og krafan hefur verið sveiflukennd. Við höfum nú þegar lækkað vexti í sögulegt lágmark og þurfum að hugsa vel næstu leiki. Við erum einnig að sjá í pípunum mjög öfluga örvun í ríkisfjármálunum og við þurfum að sjá hvaða áhrif það mun hafa,“ segir Ásgeir og segir að í raun hafi ákvörðunin hafi verið biðleikur að þessu sinni.

Lesa má ítarlegt viðtal við Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóra, í ViðskiptaMogganum sem kom út í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK