Samkvæmt árstíðaleiðréttum tölum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar voru atvinnulausir 8.200 í nóvember, eða 4,3% af vinnuaflinu. Það er 0,7 prósentustigum hærra en í október. Árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka var 79,4%, sem er um 2,6 prósentustigum lægri en í október. Árstíðarleiðrétt hlutfall starfandi fólks var 77,2% og hefur ekki verið lægra síðustu 6 mánuðina.
Þótt árstíðarleiðrétt leitni atvinnuleysis hafi verið stöðug undanfarin misseri, má sjá stíganda upp á við sé horft til síðustu sex mánaða, eða úr 3,4% í júní í 3,8% í nóvember. Leitni hlutfalls starfandi er enn nokkru lægri en í júní síðastliðnum, eða um 1,3 prósentustigum, á meðan leitni atvinnuþátttöku er um 0,9 prósentustigum lægri en í júní, segir á vef Hagstofu Íslands.
Frá nóvember 2018 hefur atvinnuleysi aukist um 0,7 prósentustig, en á sama tíma hefur atvinnuþáttaka minnkað um 3,0 prósentustig og hlutfall starfandi minnkað um 3,5 prósentustig.