Sveitarfélögin þrjú sem eiga Orkuveitu Reykjavíkur staðfestu nýlega á eigendafundi ákvörðun stjórnar fyrirtækisins að stofna opinbert hlutafélag um kolefnisbindingaraðferðina CarbFix, en sú aðferð hefur verið nýtt undanfarin ár við Hellisheiðarvirkjun. Dr. Edda Sif Pind Aradóttir, sem verið hefur verkefnisstjóri CarbFix um árabil, stýrir nýja félaginu.
Eins og fram hefur komið í fréttum mbl.is um hið nýja félag er markmið OR með því að skilja verkefnið frá kjarnastarfseminni að koma í veg fyrir að vaxandi starfsemi CarbFix trufli annað rannsóknar- og nýsköpunarstarf innan OR, afmarka og draga úr fjárhagslegri áhættu fyrir grunnþjónustu OR, ná auknum árangri í loftslagsmálum og standa vörð um hugverkarétt að verkefninu. Nýja félagið verður alfarið í eigu OR.
CarbFix-verkefnið var sett á fót sem alþjóðlegt vísindasamstarf OR, Háskóla Íslands og erlendra vísindastofnana árið 2007. Aðferðin er enn í þróun og OR leiðir nú tvö fjölþjóðleg rannsóknar- og nýsköpunarverkefni, sem eru afsprengi CarbFix; CarbFix2 og GECO . OR og samstarfsaðilar að verkefnunum hafa hlotið margvíslega alþjóðlega styrki til þróunar á aðferðinni, mest úr rannsóknaráætlunum ESB. Þannig fékk GECO-verkefnið um tvo milljarða króna úr Horizon 2020 áætlun ESB. Stefnt er að því að nýja félagið sæki áfram um slík framlög.
Kostnaður við kolefnisförgun við Hellisheiðarvirkjun með CarbFix-aðferðinni er um 3.000 krónur á hvert tonn koltvíoxíðs. En vonast er til að með frekari þróun aðferðarinnar og stærðarhagkvæmni geti kostnaðurinn víða orðið enn lægri en þetta er ívið lægri kostnaður en við að kaupa losunarheimildir á evrópskum markaði þessa dagana. Verðið er sveiflukennt en er nú um 3.300 krónur fyrir tonnið.