Félag íslensku ferðaskrifstofunnar Aventura Holidays er að fullu fjármagnað og stofnandi þess hlakkar til komandi tíma.
Það er Andri Már Ingólfsson, stofnandi og fyrrverandi eigandi flugfélagsins Primera Air, sem vinnur nú að stofnun félagsins en skrifstofa þess verður opnuð í janúar. Andri segir of snemmt að segja til um hvenær ferðir fari í sölu eða hvað Aventura Holidays muni bjóða upp á en það komi betur í ljós í janúar.
„Þegar allt er tilbúið munum við kynna fyrirtækið með glæsibrag,“ segir Andri en hann stofnaði einnig Heimsferðir á sínum tíma.
Primera Air var úrskurðað gjaldþrota á síðasta ári og færði Arion banki niður tæplega þrjá milljarða króna í ábyrgðum og lánveitingum vegna gjaldþrots flugfélagsins, að því er fram kom í ársreikningi bankans. Andri segir að tap Arion hafi raunar ekki verið þrír milljarðar heldur 1,8 milljarðar sem komu til vegna ábyrgðar flugvélaleiga fyrir Primera Air. Primera hafi ekki verið með aðra fyrirgreiðslu hjá bankanum.
Spurður hvort ekki sé of snemmt fyrir Andra að ráðast í stofnun nýrrar ferðaskrifstofu þegar svo stutt er frá gjaldþroti Primera Air segir hann:
„Primera lokaði fyrst og fremst vegna þess að fyrirtækið lenti í því óláni að fá ekki afhentar vélarnar sem það átti að fá frá AirBus. Primera lenti því í svipuðu tjóni og Icelandair hefur gert með MAX-vélarnar og fjöldi annarra félaga sem hafa lent í gríðarlegu tjóni. Ég fékk ekki þá brúarfjármögnun frá Arion banka sem hefði bjargað félaginu, enda kaus bankinn að styðja við WOW air á þeim tíma.“
Andri bendir á að þó Primera Air hafi verið lokað þá hafi ferðaskrifstofur sem tengdust félaginu haldið velli og telur Andri að fall flugfélagins eigi ekki að skyggja á rekstur þeirra sem hefur, að sögn Andra, verið til fyrirmyndar áratugum saman.
„Ég lagði inn gríðarlega fjármuni til þess að bjarga ferðaskrifstofunum og það er ánægjulegt að þau fyrirtæki eru í rekstri í dag og ganga vel eins og þau hafa alltaf gert. Að Arion hafi ákveðið að taka yfir ferðaskrifstofurnar þrátt fyrir að rekstri þeirra hafi verið bjargað með eiginfjárframlagi frá mér, voru mikil vonbrigði. Mitt bakland er ferðaskrifstofurekstur sem hefur verið farsæll alla tíð. Það verður gaman að halda áfram á þeirri braut með þeirri nýju tækni sem heimurinn býður upp á í dag.“
Það hefur gengið vel að koma skrifstofunni á koppinn, að sögn Andra, og er ferlið nokkuð langt komið. Búið er að sækja um ferðaskrifstofuleyfi og eigið fé hefur verið lagt inn. Eins og áður segir er félagið fjármagnað að fullu. Andri segir ótímabært að segja hverjir komi að stofnun Aventura Holidays ásamt honum.
Andri stofnaði Heimsferðir fyrir 27 árum og hefur komið víða við í rekstri ferðaskrifstofa.
„Félag Heimsferða var rekið með hagnaði, fyrir utan eitt ár eftir hrunið, þangað til Arion banki ákvað að taka félagið yfir. Heimsferðir eiga sér farsæla sögu, þetta var félag sem stóð alltaf við sitt og kom með margar nýjungar inn á íslenskan ferðamarkað og ég hlakka til að halda áfram á þeirri braut.“