22,7 milljón lítrar seldir

Áfengissalan jafngildir um 90 lítrum á hvern landsmann sem orðinn …
Áfengissalan jafngildir um 90 lítrum á hvern landsmann sem orðinn er tvítugur. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Alls seldi ÁTVR tæplega 22,7 milljónir lítra af áfengi á árinu 2019. Er það aukning um 3,1% frá árinu á undan, þegar sala var rétt um 22 milljónir lítra. Viðskiptavinir ÁTVR voru um 5,1 milljón á árinu, sem jafngildir því að hver landsmaður með aldur til hafi verslað í ríkinu um 20 sinnum á árinu.

Langvinsælasta tegundin, nú sem endranær, var lagerbjór. Alls seldust 16,5 milljónir lítra af lagerbjór á árinu, 2,1% meira en árið áður. Næst á eftir kom rauðvín, en af því seldust 1,9 milljónir lítra, 0,3% meira en árið áður. Þá jókst hvítvínssala um 6,4% frá fyrra ári og seldust um 1,2 milljónir lítra.

Mest aukning í sölu kampavíns og blandaðra drykkja

Mest var söluaukningin á milli ára í flokki blandaðra drykkja, en sala á þeim eykst um 28,8%. Skammt undan koma freyðivín og kampavín. Alls seldust 243.000 lítrar af freyði- og kampavíni á árinu, 27,5% meira en árið á undan. Þá jókst sala á bjórtegundum, öðrum en lagerbjór, um 14,9% og seldust tæplega 470.000 lítrar.

Eini flokkurinn þar sem sala dregst saman á milli ára er ávaxtavín. Sala á ávaxtavíni dregst saman um 13,9%, en alls seldust tæplega 250.000 lítrar af ávaxtavíni á árinu.

Aukin sala í desember

Tveir söluhæstu dagar Vínbúðarinnar voru báðir í desember. Mest var umferðin á Þorláksmessu, þegar 46.000 viðskiptavinir gerðu sér ferð í áfengisverslunina. Þann dag voru verslanir á höfuðborgarsvæðinu víða opnar til klukkan tíu um kvöld. Næstmest var salan 30. desember, en fjöldi viðskiptavina þá var um 43.000 þrátt fyrir að aðeins væri opið eins og um föstudag væri að ræða.

Freyðivín er sívinsælt í jólamánuðinum og seldust alls rúmlega 44 þúsund lítrar freyðivíns í mánuðinum eða 10,6% meira en í fyrra. Um helmingur þeirrar sölu, um 21,7 þúsund lítrar, kom til milli jóla og nýárs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka