Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands sameinuðust um áramótin undir nafni Seðlabankans. Fram kemur í fréttatilkynningu frá bankanum að markmiðið með sameiningunni sé að traust, gagnsæi og skilvirkni við yfirstjórn efnahagsmála og fjármálaeftirlit á Íslandi verði enn öflugra en áður.
Enn fremur segir að aðdraganda sameiningarinnar megi rekja til ákvörðunar ráðherranefndar um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins í október 2018 um að hefja endurskoðun lagaumgjarðar um peningastefnu, þjóðhagsvarúð og fjármálaeftirlit í kjölfar umfangsmikillar skoðunar og undirbúnings.
Þá segir að starfsmenn Seðlabanka Íslands hafi í lok síðasta árs verið 170 og starfsmenn Fjármálaeftirlitsins 120. Samtals eru því starfsmenn sameinaðrar stofnunar 290 við upphaf árs.