Verulega hefur dregið úr rekstrarhagnaði hótela og gistiheimila undanfarin ár. Árið 2018 nam rekstrarhagnaður þeirra að teknu tilliti til afskrifta (EBIT) um 8,5 milljörðum kr. sem gerir um 9,3% af tekjum, en tekjurnar námu tæpum 92 milljörðum kr. Til samanburðar nam rekstrarhagnaðurinn um 12 milljörðum kr. árið 2016 þegar hann var mestur og var hann þá 14,7% af tekjum.
Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.
Þar segir, að rekstrarhagnaðurinn hafi dregist saman milli áranna 2016 og 2017, þegar hann nam 9,2 milljörðum, og einnig á milli 2017 og 2018. Þrátt fyrir lækkun rekstrarhagnaðar undanfarin ár hafi hann enn verið töluvert hár árið 2018 í sögulegu ljósi og einungis hærri árin 2016 og 2017.
„Rekstrarhagnaðurinn lækkaði um 23% 2017 og 8% 2018. Lækkunin er þó enn meiri sé horft á rekstrarhagnað á hvert herbergi en herbergjum fjölgaði bæði 2017 og 2018, um 7,9% 2017 og 6,8% 2018. Út frá því má ætla að rekstrarhagnaður á herbergi hafi dregist saman um 28,4% árið 2017 og 13,8% 2018. Rekstrarhagnaður á herbergi margfaldaðist á fyrstu árum uppsveiflunnar í ferðaþjónustu sem hófst árið 2011 og fjórfaldaðist t.a.m. á milli áranna 2010 og 2013,“ segir í Hagsjánni.