Bresk stjórnvöld bjarga lággjaldaflugfélagi

Flybe flýgur áfram um loftin blá, eftir að hafa gert …
Flybe flýgur áfram um loftin blá, eftir að hafa gert samning við bresk stjórnvöld sem tryggir starfsemi félagsins. AFP

Breska ríkisstjórnin og flugfélagið Flybe hafa komist að samkomulagi sem gerir breska flugfélaginu, sem glímir við fjárhagsvandræði, kleift að halda áfram rekstri. Andrea Leadsom viðskiptamálaráðherra Bretlands greindi frá þessu í dag.

Á Twitter sagði ráðherrann að hún væri „himinlifandi“ með að hafa náð samkomulagi um að halda lággjaldaflugfélaginu, sem er með höfuðstöðvar í Exeter, áfram í rekstri. Leadsom sagði að með því væri tryggt að ólíkir hlutar Bretlands yrðu áfram tengdir, en í frétt AFP kemur fram að þingmenn hafi viðrað áhyggjur af því að fari Flybe á hausinn raskist samgöngur á milli Norður-Írlands og Englands.

Ráðherrann greindi ekki nánar frá því hvað fælist í samkomulaginu, en sagði að í því fælust góð tíðindi fyrir starfsmenn Flybe, viðskiptavini og kröfuhafa.

Andrea Leadsom, viðskiptamálaráðherra Bretlands.
Andrea Leadsom, viðskiptamálaráðherra Bretlands. AFP

Um 2.000 manns starfa hjá Flybe, sem flýgur til 170 áfangastaða frá Bretlandi og er helsta flugfélagið á ýmsum minni flugvöllum í landinu, eins og til dæmis í Exeter og Southampton í suðurhluta Englands. Flugfélagið flaug til Íslands frá Birmingham í Englandi frá 2014 og fram á árið 2015. 

Staða flugfélagsins hefur farið versnandi undanfarið ár og segir í frétt AFP um málið að það megi rekja til minni eftirspurnar, harðrar samkeppni og óvissu um þróun efnahagsmála vegna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK