Breska ríkisstjórnin og flugfélagið Flybe hafa komist að samkomulagi sem gerir breska flugfélaginu, sem glímir við fjárhagsvandræði, kleift að halda áfram rekstri. Andrea Leadsom viðskiptamálaráðherra Bretlands greindi frá þessu í dag.
Á Twitter sagði ráðherrann að hún væri „himinlifandi“ með að hafa náð samkomulagi um að halda lággjaldaflugfélaginu, sem er með höfuðstöðvar í Exeter, áfram í rekstri. Leadsom sagði að með því væri tryggt að ólíkir hlutar Bretlands yrðu áfram tengdir, en í frétt AFP kemur fram að þingmenn hafi viðrað áhyggjur af því að fari Flybe á hausinn raskist samgöngur á milli Norður-Írlands og Englands.
Ráðherrann greindi ekki nánar frá því hvað fælist í samkomulaginu, en sagði að í því fælust góð tíðindi fyrir starfsmenn Flybe, viðskiptavini og kröfuhafa.
Um 2.000 manns starfa hjá Flybe, sem flýgur til 170 áfangastaða frá Bretlandi og er helsta flugfélagið á ýmsum minni flugvöllum í landinu, eins og til dæmis í Exeter og Southampton í suðurhluta Englands. Flugfélagið flaug til Íslands frá Birmingham í Englandi frá 2014 og fram á árið 2015.
Staða flugfélagsins hefur farið versnandi undanfarið ár og segir í frétt AFP um málið að það megi rekja til minni eftirspurnar, harðrar samkeppni og óvissu um þróun efnahagsmála vegna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.