Þrír framkvæmdastjórar hjá Volkswagen og þrír starfsmenn hafa verið ákærðir fyrir markaðsmisnotkun í tengslum við útblásturssvindl fyrirtækisins. Árið 2015 viðurkenndi VW að hafa notað sérstakan hugbúnað til að svindla á mælingum á útblæstri Volkswagen-dísilbifreiða.
Sexmenningarnir eru sakaðir um að hafa selt viðskiptavinum í Evrópu og Bandaríkjunum dísilbíla sem þeir vissu að búinn væri hugbúnaði sem svindlaði á mælingum á útblæstri, að því er segir í ákæru saksóknara í Braunschweig. Brotin áttu sér stað á árunum 2006-2015.
Fleiri starfsmenn fyrirtækisins sæta rannsókn og hafa æðstu stjórnendur Volkswagen einnig verið ákærðir fyrir markaðsmisnotkun.
Herbert Diess, forstjóri Volkswagen, Hans Dieter Pötsch, stjórnarformaður VW, og Martin Winterkorn, fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins, voru í haust ákærðir fyrir að hafa beðið með að veita fjárfestum upplýsingar um fjárhagserfiðleika fyrirtækisins.
Alls hafa 11 manns verið ákærðir vegna útblásturssvindlsins. Þá hafa 450.000 eigendur Volkswagen-dísilbíla, flestir þýskir, höfðað mál á hendur Volkswagen og krefjast bóta.
Hneykslið hefur nú þegar kostað Volkswagen um 30 milljarða evra, eða sem nemur rúmum fjórum billjónum króna, sökum bóta, sekta og málskostnaðar.