Ferðamálastofa undirbýr nú að vísa máli ferðaskrifstofunnar Farvel til lögreglu. Ferðamálastofa afturkallaði rekstrarleyfi ferðaskrifstofunnar í desember þar sem fyrirtækið uppfyllti ekki lengur skilyrði laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun um skil gagna og hafði ekki sinnt ákvörðun Ferðamálastofu um hækkun tryggingarfjárhæðar.
Þetta staðfestir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri í samtali við mbl.is, en Mannlíf greindi fyrst frá.
„Við alla vega teljum ástæðu til þess að vísa ákveðnum atriðum í þessu til lögreglu,“ segir hann spurður hvort Ferðamálastofa telji að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað við rekstur ferðaskrifstofunnar.
Spurður út í gagnrýni kröfuhafa á Farvel um að fyrirtækið hafi haldið ferðaþjónustuleyfi sínu þó að tryggingar hafi ekki verið til staðar í fjölda mánuði segir Skarphéðinn: „Fyrirtækið var með leyfi og var með tryggingar. Öll málsmeðferð í þessu máli var í samræmi við lög sem gilda um Ferðamálastofu og jafnframt þær málsmeðferðarreglur sem gilda í stjórnsýslunni. Það er ekki annað um það að segja.“