Dómstóll í Toronto hefur gert Volkswagen í Kanada að greiða 196,5 milljónir kanadískra dollara, eða um 18,5 milljarða króna, í sekt vegna útblásturshneykslis.
Bílaframleiðandinn hafði áður játað að hafa brotið umhverfislög með athæfi sínu.
Dómstóllinn samþykkti samning sem Volkswagen hafði gert við kanadísk stjórnvöld, sem höfðuðu í desember umfangsmikið mál gegn fyrirtækinu.
Þrír framkvæmdastjórar hjá Volkswagen og þrír starfsmenn voru fyrr í mánuðinum ákærðir fyrir markaðsmisnotkun í tengslum við útblásturssvindl fyrirtækisins. Árið 2015 viðurkenndi VW að hafa notað sérstakan hugbúnað til að svindla á mælingum á útblæstri Volkswagen-dísilbifreiða.