Neikvæð áhrif af aflagðri starfsemi og eignum til sölu á afkomu Arion banka á fjórða ársfjórðungi síðasta árs mun nema um 8 milljörðum króna að teknu tilliti til skatta. Vegna þessa er gert ráð fyrir að afkoma bankans verði aðeins einn milljarður króna, en til samanburðar hagnaðist bankinn um 7,8 milljarða árið 2018 og 14,4 milljarða árið 2017.
Helsta ástæða þessara neikvæðu áhrifa tengjast félögunum Valitor og Stakksberg, en hið síðarnefnda er eigandi kísilverksmiðjunnar í Helguvík.
Á fyrstu níu mánuðum síðasta árs voru neikvæð áhrif af aflagðri starfsemi og eignum til sölu samtals 4,97 milljarðar, en þar voru fyrrgreind fyrirtæki einnig stærstu áhrifavaldarnir auk félagsins Sólbjargs, sem tengist gjaldþroti Primera og heldur á eignum TravelCo, sem olli neikvæðum áhrifum upp á 616 milljónir. Má því gera ráð fyrir að neikvæð áhrif af þessum þremur félögum muni nema um 13 milljörðum á síðasta ári og vegna Valitors og kísilversins um 12,4 milljörðum.
Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að eftir að ákveðið var að ráðast í endurskipulagningu Valitors í lok síðasta árs til að snúa við taprekstri hafi ný viðskiptaáætlun verið undirbúin. Á þeim grunni hafi verið unnin virðisrýrnunarpróf á óefnislegum eignum, en umtalsverður hluti þeirra tengdist alrásarlausnum (omni-channel solutions) sem félagið hafi þróað en ákveðið var að draga úr fjárfestingu í.
Ný viðskiptaáætlun Valitors var samþykkt á fundi stjórnarinnar í dag og þarf að færa óefnislegar eignir Valitors niður um 4 milljarða í kjölfarið. Kemur þetta til viðbótar við tap og sölukostnað upp á 1,7 milljarða á fjórðungnum.
Í tilfelli Stakksbergs er vísað til óvissu á mörkuðum með sílikon og þeirrar staðreyndar að nokkrir framleiðendur hafa dregið úr framleiðslu eða lokað verksmiðjum. „Því er til staðar ónýtt framleiðslugeta sem leiða má líkur að hafi neikvæð áhrif á söluferli sílikonverksmiðjunnar í Helguvík. Arion banki niðurfærir því eignir Stakksbergs og nema áhrifin á afkomu fjórða ársfjórðungs um 2,3 milljörðum króna að teknu tilliti til skatta,” segir í tilkynningunni.
Hagnaður Arion banka á fyrstu níu mánuðum síðasta árs nam 3,87 milljörðum. Neikvæð áhrif af þessum tveimur dótturfélögum bankans þurrka því upp allan hagnað bankans á fjórða ársfjórðungi auk þess að lækka heildarhagnað ársins um tæplega þrjá milljarða, en eins og fyrr segir er gert ráð fyrir að afkoma ársins 2019 verði um einn milljarður.