Mikill vöxtur er í samfélagslega ábyrgum fjárfestingum um heim allan, að því er fram kom í erindi dr. Ahmad A. Rahnema á morgunverðarfundi sem Orkuveita Reykjavíkur, Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og IcelandSIF héldu í morgun.
Samfélagslega ábyrgar fjárfestingar geta verið í formi hlutafjár- eða skuldabréfakaupa en græn skuldabréf – alþjóðlegir straumar var einmitt yfirskrift fundarins í morgun.
Samkvæmt tölum sem dr. Rahnema kynnti á fundinum nam vöxtur samfélagslega ábyrgra fjárfestinga á einungis tveimur árum um helmingi í Kanada, þriðjungi í Bandaríkjunum, en hátt í fjórföldun í Ástralíu. Vöxturinn í Evrópu var minni en þar er talið að nú þegar sé meira en helmingur allra eignastýrðra fjárfestinga byggður á fleiri en fjárhagslegum sjónarmiðum.
Orkuveita Reykjavíkur, sem var fyrsta íslenska fyrirtækið til að bjóða græn skuldabréf í opnu útboði hér á landi, hefur stuðst við alþjóðleg ESG-viðmið við árlega skýrslugjöf um árabil. Í máli Ingvars Stefánssonar og Drafnar Harðardóttur á fjármálasviði OR kom fram að sá bakgrunnur og reynsla við formlega skýrslugjöf um ófjárhagsleg málefni í rekstrinum sem OR býr að hafi nýst vel við undirbúning grænu skuldabréfanna. Þótt þau hafi ekki viljað fullyrða að fyrirtækinu hefðu boðist betri kjör við útboð á grænu skuldabréfunum en þeim hefðbundnu, sagði Ingvar á fundinum að sterkar vísbendingar væru í þá átt og sýndi tölur í því samhengi.