„Stjórnendur og leiðtogar um allan heim bera mikla ábyrgð á því að sýna forystu í baráttunni gegn loftslagsvánni. Þetta er ein helsta áskorun nútímans og ef leiðtogar axla ábyrgð og knýja fram nýsköpun á þessu sviði þá skilar það sér einnig í meiri viðskiptatryggð við neytendur og hagsmunaaðila.“
Þetta sagði Jaime Nack sérfræðingur á sviði samfélagsábyrgðar, á Janúarráðstefnu Festu sem haldin var í dag í Hörpu, að því er kemur fram í tilkynningu.
Ráðstefnan var haldin í sjöunda sinn og var yfirskrift hennar í ár „Sóknarfæri á tímum alkemíu“. Markmiðið var að ræða þær áskoranir og tækifæri sem felast í því fyrir fyrirtæki og stofnanir að breyta áherslum viðskiptamódela með lengri tíma og heildarhagsmuni að leiðarljósi.
Auk Jaime Nack hélt Pablo Jenkins, ráðgjafi ríkisstjórnar Costa Rica í sjálfbærni, framsögu. Jafnframt kynntu fulltrúar Össurar, Klappa grænna lausna, Vistorku, Pure North Recycling og Orku náttúrunnar, vegferð sína og stefnu í átt að hringrásarhagkerfinu á næstu 12 mánuðum.
Í lok ráðstefnu áttu sér stað pallborðsumræður þar sem Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis, Tómas N. Möller, yfirlögfræðingur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Aðalheiður Snæbjarnardóttir sérfræðingur í samfélagsábyrgð hjá Landsbankanum, og Huginn Freyr Þorsteinsson, sérfræðingur og eigandi AtonJL, veltu fyrir sér næstu skrefum íslensks atvinnulífs í átt að aukinni sjálfbærni.
Allt umfang ráðstefnunnar hefur verið kolefnisjafnað hjá Kolviði, Votlendissjóði og UN Climate Neutral Now og hefur fengist vottun þess efnis.
Pablo Jenkins sagði frá vegferð Costa Rica í átt að aukinnar sjálfbærni en sú áhersla hefur skilað sér í þreföldun á vergri landsframleiðslu (GDP) á síðastliðnum tuttugu árum. Costa Rica hefur byggt upp ferðaþjónustu með sjálfbærni að leiðarljósi og er talið vera leiðandi í dag á því sviði. Meðal aðgerða var að friða um fjórðung landsins, nýta endurnýjanlega orku í auknum mæli og hefja markvissa skógrækt til að tryggja líffræðilegan fjölbreytileika.
„Ég er stundum spurð að því hvert viðskiptatækifærið sé í sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Mitt svar er að ég hefði áhuga á að heyra rökin fyrir viðskiptatækifærinu í öðru. Heimurinn er að breytast hratt, áskoranirnar sem blasa við okkur með t.d. loftslagsbreytingum og tækniþróun eru gríðarlega stórar, en tækifærin eru líka mjög spennandi og mörg. Ég tel að við séum á rétti leið, líkt og kom fram á ráðstefnunni í dag. Verkefnið er að hafa ásetninginn skýran, framtíðarsýnina skýra, efla samtakamátt allra, einstaklinga, fyrirtækja og stofnana, í átt að aukinni sjálfbærni,“ segir Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, í tilkynningunni.