Myndi bæta aðgang Íslendinga að bandarískum markaði

Lögreglumenn fyrir utan Bandaríkjaþing.
Lögreglumenn fyrir utan Bandaríkjaþing. AFP

Mikilvægt skref í átt að bættum aðgangi íslenskra fjárfesta og viðskiptaaðila að bandaríska markaðnum var tekið með framlagningu frumvarps sem myndi auðvelda íslenskum fyrirtækjum að senda stjórnendur og fjárfesta tímabundið til starfa í landinu, ef það verður samþykkt.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Framlagning frumvarpsins kemur í kjölfar fjölda funda utanríkisráðherra með lykilþingmönnum Bandaríkjaþings.

Íslandsfrumvarpið svonefnda var lagt fram í fulltrúadeild bandaríska þingsins í desember. Frumvarpið (nr. 5496) sem ber heitið Increasing Trade and Investment from Iceland Act felur í sér að íslenskir fjárfestar og viðskiptafólk sem stunda viðskipti í Bandaríkjunum geti sótt um E-1 og E-2 vegabréfsáritanir.

„Íslendingar standa verr að vígi í þessum málum en ríkisborgarar nágrannaríkja okkar og ég hef lagt ríka áherslu á að rétta þessa stöðu og greiða aðgang íslenskra fjárfesta og viðskiptamanna að bandaríska markaðnum,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í tilkynningunni. „Verði frumvarpið að lögum hefur stórum áfanga verið náð í að efla tengsl okkar við Bandaríkin á sviði viðskipta.“

Síðastliðið ár hefur Guðlaugur Þór, í tíðum samskiptum sínum við fulltrúa bandarískra stjórnvalda og þingmenn beggja deilda bandaríska þingsins lagt ríka áherslu á að íslenskum ríkisborgurum verði bætt við lista þeirra ríkja sem aðgang hafa að áritunum fyrir fjárfesta og viðskiptaaðila.

Framlagning frumvarpsins er árangur fjölda funda utanríkisráðherra, m.a. með lykilþingmönnum öldungadeildar og fulltrúadeildar þingsins dagana 18.-19. september 2019 í Washington, og eftirfylgni sendiráðs Íslands í Washington, samkvæmt tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK