Neftóbakssala ÁTVR dregst verulega saman

Samdráttur í heildsölu íslensks neftóbaks hefur numið tæpum 37% það …
Samdráttur í heildsölu íslensks neftóbaks hefur numið tæpum 37% það sem af er mánuði miðað við sama tímabil í fyrra. Rekstrarstjóri hjá N1 segir um 10% samdrátt hafa orðið á tóbakssölu eftir að sala tóbakslausra nikótínpúða hófst þar í haust. mbl.is/RAX

Á fyrstu 28 dögum janúarmánaðar seldi ÁTVR tæplega 37% minna af íslensku neftóbaki í heildsölu en á sama tímabili í fyrra. Samdrátturinn nemur rúmu tonni af tóbaki, en í ár seldust 1.795 kíló af tóbaki samanborið við 2.830 kíló á sömu dögum í fyrra.

Mögulega hefur þetta eitthvað að gera með tilkomu tóbakslausra nikótínpúða inn á íslenskan markað, en slíkar vörur urðu áberandi í verslunum undir lok síðasta árs. 

Tæplega 37% samdráttur var á heildsölu neftóbaks hjá ÁTVR fyrstu …
Tæplega 37% samdráttur var á heildsölu neftóbaks hjá ÁTVR fyrstu 28 daga mánaðarins. Tafla/ÁTVR

Viðlíka samdráttur á milli mánaða hefur ekki sést í heildsölu neftóbaks hjá ÁTVR síðustu misseri, en á árinu 2019 varð heilt yfir 3,14% vöxtur í heildsölu íslensks neftóbaks frá ÁTVR og alls rúm 46 tonn af neftóbaki seld.

Sala neftóbaksins á ársgrundvelli hefur vaxið stöðugt frá árinu 2016 og oft meira en á síðasta ári, en söluaukningin nam 19% á milli áranna 2017 og 2018.

Níkótínpúðar möguleg ástæða?

Ástæðan fyrir samdrættinum nú kann mögulega að vera sú að staðkvæmdarvörur, þá sérstaklega tóbakslausir nikótínpúðar eða svokallað „hvítt snus“, aðallega frá sænskum framleiðendum, hafa hrúgast inn á íslenska markaðinn á undanförnum mánuðum.

Þessir pokar eru ætlaðir til neyslu í efri vör og hafa örfá vörumerki verið seld í apótekum og verslunum hér á landi sem nikótínlyf í nokkurn tíma, en undanfarna mánuði hefur bæst verulega í flóruna. Þar sem ekkert tóbak er í púðunum falla þeir ekki undir bann sem er í gildi hér á landi við sölu bæði fínkorna og grófkorna munntóbaks.

Það gerir íslenska neftóbakið heldur ekki, enda neftóbak, þrátt fyrir að stór hluti þess sé sennilega tekinn í vörina af neytendum. Forstjóri ÁTVR greindi reyndar frá því í ársskýrslu fyrirtækisins fyrir árið 2016 að ríkisfyrirtækið treysti sér ekki lengur til þess að greina á mili þess hvort það framleiddi og seldi neftóbak eða munntóbak.

Hægt er að kaupa níkótínpúðana á fjölmörgum sölustöðum hér á landi og sífellt bætist í, auk þess sem hægt er að kaupa úrval slíkra vara í bæði innlendum og erlendum netverslunum.

Um 10% samdráttur í sölu neftóbaks hjá N1

N1 hóf sölu tóbakslausra nikótínpúða síðla árs 2019 og segir í svari fyrirtækisins við fyrirspurn mbl.is að neytendur hafi tekið þessari nýju vöru fagnandi. 

Jón Viðar Stefánsson er rekstrarstjóri þjónustustöðva N1.
Jón Viðar Stefánsson er rekstrarstjóri þjónustustöðva N1. Ljósmynd/Aðsend

„Það er alveg ljóst að það er yfirfærsla úr tóbakinu hjá okkur, þessu íslenska, yfir í þessa nýjung sem kemur frá Svíþjóð í gegnum íslenska birgja. Söluminnkunin í íslensku neftóbaki, sem er oft notað sem tóbak í vör, nemur í kringum 10% hjá okkur síðustu 2 mánuði ársins [2019] hjá okkur. Ef salan á tóbakslausu nikótínpúðunum er skoðuð á móti er ljóst að það er samspil og yfirfærsla milli tegunda,“ segir Jón Viðar Stefánsson, rekstrarstjóri þjónustustöðva N1, í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.

Jón Viðar segir að gengið sé um þessa nýju vöru eins og aðrar sambærilegar vörur á borð við nikótíntyggjó og hefðbundið tóbak. Varan sé geymd fyrir aftan afgreiðsluborð á útsölustöðum og ekki seld til fólks undir 18 ára aldri.

Of snemmt að álykta nokkuð

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri Vínbúðarinnar ÁTVR.
Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri Vínbúðarinnar ÁTVR. Ljósmynd/ÁTVR

Sigrún Ósk Sigurðardóttir aðstoðarforstjóri ÁTVR segir í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is að það sé kannski of snemmt að segja til um hvort þetta séu varanleg áhrif og þá einnig hvort samdrátt í heildsölu tóbaksins megi skýra með því að staðkvæmdarvörur séu að sópa til sín markaðshlutdeild.

Sigrún bendir á að sveiflur geti verið á sölunni á …
Sigrún bendir á að sveiflur geti verið á sölunni á milli mánaða. Tafla/ÁTVR

„Held að það sé nauðsynlegt að horfa til lengri tíma til að sjá áhrifin betur,“ ritar Sigrún til blaðamanns og bendir einnig á að sala á tóbakinu sem ÁTVR framleiðir geti sveiflast nokkuð á milli mánaða eins og sést í þegar gerður er samanburður á sölunni á milli áranna 2018 og 2019.

Þar eru dæmi um að sala á milli einstakra mánaða aukist um allt að tæpum 22% og dragist saman um allt að tæpum 9% á milli ára. Ekki eru þó nein dæmi þess að samdráttur nemi um 37% eins og nú er raunin.

Sett í sölu til að „taka slaginn“ við tóbakið

Vörumerkin sem hafa verið að ryðja sér rúms á íslenska markaðnum eru fjölmörg, en sum hafa verið kynnt og markaðssett sem „alvöru valkostir“ við íslenska neftóbakið og fleiri tóbaksvörur.

Á vef fyrirtækisins Nicoland, sem er sérleyfishafi White Fox-nikótínpúðanna á Íslandi, segir að á bak við fyrirtækið standi „fólk sem hefur brennandi áhuga á að taka slaginn við íslenska neftóbakið, ruddann, retturnar eða bölvað veipið“.

„Við þekkjum það á eigin skinni hvað er erfitt að losa sig við tóbakið og ekki einu sinni minnast á hversu dýrt það er,“ segir á vefsíðu fyrirtækisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK