Færa viðskiptavild niður um 2,5 milljarða vegna 365

Heiðar Guðjónsson forstjóri Sýnar.
Heiðar Guðjónsson forstjóri Sýnar. mbl.is/RAX

Fjarskiptafélagið Sýn hf. hefur fært niður viðskiptavild sem nemur 2,5 milljörðum í bókum sínum, en þessi ákvörðun var tekin við vinnslu ársreiknings 2019 þar sem vísbendingar komu fram um að færa þurfti viðskiptavildina niður vegna kaupa á eignum og rekstri 365 miðla. Forstjóri félagsins segir þetta helgast af óraunhæfum áætlunum sem höfðu áhrif á efnahagsreikninginn.

Við nýja matið var byggt á nýtingarvirði, en það byggir á mati stjórnenda á framtíðarhorfum sjóðskapandi eininga þar sem stuðst er við sögulega þróun og mat á framtíðarhorfum. Lykilforsendur á bak við mat á virðisrýrnuninni eru hægari framgangur samlegðar í sameinuðum rekstri félaganna og breytingar á samkeppnismarkaði félagsins.

„Við erum að hreinsa úr efnahagsreikningi áhrif sem byggðu ekki á raunhæfum áætlunum.  Þetta hefur engin áhrif á reksturinn, hvorki í dag né í framtíðinni, heldur er einungis til merkis um að við viljum gera efnahagsreikninginn heilbrigðari.  Þeir sem greina fyrirtækið eru löngu búnir að átta sig á þessu en nú er verið að uppfæra efnahagsreikninginn í takt við raunhæf rekstrarplön,“ er haft eftir Heiðari Guðjónssyni, forstjóra Sýnar í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Þá segir einnig að aðgerðir síðustu mánaða, sem miði að því að takast á við tímabundnar áskoranir í rekstrinum, muni halda áfram á þessu ári til að leggja grunn að viðsnúningi í rekstrinum og auka samlegðaráhrif af samruna Sýnar og 365 miðla.

Tekið er fram að niðurfærslan sé eingöngu reikningshaldsleg og hafi ekki áhrif á sjóðstöðu félagsins, sjóðstreymi þess eða lánaskilmála. Þá hefur niðurfærslan engin áhrif á framtíðarhorfur eða stefnu félagsins. Niðurfærslan mun hafa þau áhrif að viðskiptavild félagsins er færð úr 10.646 milljónum króna í 8.146 milljónir króna.

Miðað við bráðabirgðauppgjör félagsins fyrir árið 2019 þá mun EBITDA félagsins vera nálægt 5.505 milljónir króna og tekjur félagsins 19.810 milljónir króna. Afkoma félagsins og eigið fé lækka sem nemur afskriftinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK