Tækifæri til að snúa vörn í sókn

Halldór Benjamín Þorbergsson og Heiðrún Lind Marteinsdóttir voru gestir Kompanís …
Halldór Benjamín Þorbergsson og Heiðrún Lind Marteinsdóttir voru gestir Kompanís í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrátt fyrir að blikur séu á lofti í íslensku efnahagslífi eru þau Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sammála um að með réttum aðgerðum megi snúa vörn í sókn.

Húsfyllir var á morgunfundinum í Hádegismóum.
Húsfyllir var á morgunfundinum í Hádegismóum. Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

Þetta kom fram í máli þeirra á morgunfundi Kompanís, viðskiptaklúbbs Morgunblaðsins nú í morgun.

Halldór Benjamín benti á að það væri mikilvægt að viðhalda samkeppnishæfni landsins, ekki síst í ljósi þess að hér á landi væru laun þau hæstu sem hlutfall af landsframleiðslu meðal allra ríkja OECD. Sagði hann að laun hefðu hækkað gríðarlega á síðustu árum og að það kæmi nú m.a. fram í auknu atvinnuleysi. Breytt staða þjóðarbúsins gerði það að verkum að íslenska krónan gæfi ekki eftir og því birtist aðlögun hagkerfisins í því að fyrirtæki hagræddu og fækkuðu starfsfólki.

Sjálfvirknivæðing óhjákvæmileg

Heiðrún Lind tók í sama streng. Sagði að íslenskur sjávarútvegur gæti ekki keppt við launakostnað í Póllandi eða Kína. Það ýtti undir enn frekari sjálfvirknivæðingu hér á landi. Það hefði nú þegar komið fram í fækkun starfa í greininni og myndi gera það áfram á komandi árum.

Ljúfur kaffiilmur frá kaffigerðarmeisturum Tes og kaffis lagðist vel í …
Ljúfur kaffiilmur frá kaffigerðarmeisturum Tes og kaffis lagðist vel í fundargesti. Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

Spurð út í hvaða aðgerða mætti grípa til, nú þegar hægja tekið hefði á íslensku hagkerfi sögðu þau bæði að ríkisvaldið þyrfti að leita leiða til að draga úr álögum á fyrirtækin í landinu, m.a. tryggingagjaldi. Heiðrún Lind setti gjaldtökuna einnig í samhengi við yfirstandandi loðnuleit. Ríkisvaldið gerði kröfu til þess að útgerðin tæki á sig kostnað við stofnstærðarmælingar þrátt fyrir að veiðigjaldi sem útgerðirnar greiða hafi verið ætlað að mæta kostnaði sem til félli vegna þeirra.

Mikil tækifæri í laxeldi

Bæði voru þau á því að Ísland væri í öfundsverðri stöðu að mörgu leyti og að nýta mætti tækifærin. Nefndi Heiðrún Lind að laxeldi væri dæmi um atvinnugreinar í miklum vexti. Ekki væri útilokað að það gæti skilað 100 til 200 milljarða gjaldeyristekjum í framtíðinni. Áréttaði hún þó mikilvægi þess að uppbyggingin á greininni yrði gerð í sem mestri sátt og að áhrif á umhverfið væru skoðuð til hlítar meðfram auknum umsvifum.

Kristófer Helgason matreiðslumeistari á Morgunblaðinu galdraði fram girnilegan morgunverð fyrir …
Kristófer Helgason matreiðslumeistari á Morgunblaðinu galdraði fram girnilegan morgunverð fyrir viðstadda. Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

Þá benti Heiðrún Lind einnig á að jafnvel þótt núverandi leyfi, sem gerðu ráð fyrir allt að 140 þúsund tonna eldi, yrðu fullnýtt, yrði Ísland lítill framleiðandi á þessu sviði. Norðmenn væru nú þegar með framleiðslu vel yfir 1 milljón tonna. Sennilegra væri að framleiðslan hér á landi, sem í fyrra taldi rétt um 20 þúsund tonn, yrði í námunda við það sem Færeyingar hafa byggt upp með farsælum hætti á síðustu árum.

Horfa þarf til margra breyta

Nokkur umræða spannst um vaxtakjör heimilanna í landinu og áhyggjur fundarmanna beindust m.a. að því að vaxtastefna Seðlabankans miðlaðist ekki nægilega út í vaxtakjör þau sem bankarnir bjóða.

Í upphafi funda Kompanís gefst gjarnan tækifæri til skrafs og …
Í upphafi funda Kompanís gefst gjarnan tækifæri til skrafs og ráðagerða. Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

Halldór Benjamín sagði að vaxtakjör bankastofnana væru á ábyrgð þeirra og þeim yrði ekki hnikað til með ákvörðunum stjórnvalda. Hins vegar væri mikilvægt að tryggja stöðugleika og lága verðbólgu. Betri vaxtakjör heimilanna væru í raun mun meiri búbót fyrir flest þeirra en krónutöluhækkanir í kjarasamningum upp á fimm þúsund krónur, til eða frá. Hvatti hann alla landsmenn til að skoða kosti þess að endurfjármagna eldri húsnæðisskuldir. Hagstæð lánakjör um þessar mundir gætu aukið ráðstöfunartekjur heimilanna um tugi þúsunda á mánuði hverjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK