„Ætlum að skila hagnaði á þessu ári“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að stefnt sé að …
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að stefnt sé að því að skila hagnaði á þessu ári eftir samtals 14 milljarða tap síðustu tvö ár. mbl.is/Kristinn Magnússon

Grunnrekstur Icelandair batnaði umtalsvert á síðasta ári og ef ekki hefði verið fyrir áhrifin af kyrrsetningu Boeing 737 MAX-véla félagsins hefði hagnaður þess fyrir skatta og fjármagnsgjöld verið um 60 milljónir Bandaríkjadala, eða 7,7 milljarðar króna. Á þessu ári ætlar félagið að skila hagnaði þótt tekið sé tillit til áhrifanna af kyrrsetningu, sem mun líklegast vara alla vega fram á sumar.

Sjá tækifæri til að bæta reksturinn

Á uppgjörsfundi í morgun fór Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, fjármálastjóri félagsins, fyrir afkomuna. Sagði hún þar að nokkur veigamikil atriði varðandi bættan rekstur á síðasta ári og þá sérstaklega á síðasta ársfjórðungi, mætti rekja til betri tekjustýringar, aukinni stundvísi og betri nýtingará áhöfnum. „Það varð töluverður rekstrarbati á fjölmörgum stöðum. Það skín ekki í gegn út af MÖX-unum, en við sjáum enn tækifæri inni og ætlum að skila arðbærum og hagkvæmum rekstri 2020,“ sagði Eva.

Samkvæmt ársreikningnum sem birtur var í gær tapaði Icelandair rúmlega sjö milljörðum í fyrra og er ljóst að það helgast helst af vandræðunum með MAX-vélarnar. Þrátt fyrir tapið tóku fjárfestar á markaði tölunum vel og er þá líklegast litið til framtíðar, en í fyrstu viðskiptum hækkuðu bréf félagsins um 9,4%. Eftir því sem leið fram á hádegi hefur hækkunin gengið aðeins til baka og stendur nú í 6%.

Launakostnaður lækkaði um 5%

Icelandair hætti með fjóra áfangastaði í Bandaríkjunum, en er komið með nýjan áfangastað í Evrópu á móti, en það er Barcelona. Sætiskílómetrum fækkaði á fjórða ársfjórðungi um 9% hjá Icelandair, en farþegum fækkaði hins vegar aðeins um 3%. Sætanýting og hleðsla vélanna jókst því á tímabilinu. Fækkaði farþegum fyrst og fremst frá Bandaríkjunum á meðan þeim fjölgaði örlítið frá Evrópu á tímabilinu. Hins vegar fjölgaði ferðamönnum sem komu til landsins, en svokölluðum „via-farþegum“ sem stoppa ekki hér á landi heldur halda beint yfir hafið, fækkaði umtalsvert.

Hjá dótturfélaginu Air Iceland Connect fækkaði sætiskílómetrum um 18% og farþegum um 9%. Nýtnin fór hins vegar upp um 7%. Hjá Icelandair hotels fjölgaði framboðnum hótelnóttum um 3%, en seldar nætur voru niður um 1%.

Samkvæmt uppgjörinu lækkaði launakostnaður félagsins um 5% á síðasta ári, en Eva sagði að þar skipaði gengisbreyting stærstan hluta.

Boeing 737 MAX-vélar Icelandair hafa verið kyrrsettar frá því í …
Boeing 737 MAX-vélar Icelandair hafa verið kyrrsettar frá því í mars. mbl.is/​Hari

2,1 milljarðs sparnaður með bættri stundvísi

Á uppgjörsfundinum fyrir árið 2018 sem haldinn var fyrir ári kom fram að komustundvísi félagsins væri 62%. Var lögð mikil áhersla á að bæta þetta hlutfall og sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins, við það tækifæri að tafir kostuðu félagið háar upphæðir. Ljóst er að það reyndist rétt, því komustundvísi síðasta árs var komin upp í 74% og metur félagið að sparnaður vegna þess hafi verið 17 milljónir dala, eða 2,1 milljarður. Þar af var sparnaðurinn á þessum lið 4 milljónir dala á fjórða ársfjórðungi miðað við árið á undan. Sagði Eva á fundinum í morgun að þetta væri meðal annars sparnaður á kostnaði við áhafnir, eldsneytiskostnað og bætur til farþega.

Bogi sagði á fundinum að félagið ætlaði sér að auka stundvísina enn frekar á þessu ári, þótt ekki mætti búast við jafn stóru stökki milli ára aftur.

Eva sagði á fundinum að þá myndi félagið sjá fram á lægri fjármagnskostnað á þessu ári en áður, en það væri meðal annars tilkomið vegna þess að eldri lán hafi verið greidd upp og endurfjármögnuð með innlendum og erlendum lánum á hagstæðari kjörum auk þess sem nýr hluthafi kom með fjármagn inn í reksturinn. Sagði hún þetta hafa verið hagstæðari fjármögnun en skuldabréfaútgáfuna.

„Við erum að byggja grunn til framtíðar

Áætlun þessa árs gerir ráð fyrir hagnaði upp á 3-5% fyrir skatta og fjármagnsgjöld sem hlutfall af tekjum félagsins. Í fyrra voru tekjurnar 319 milljón dalir og miðað við það er áætlað að hagnaðurinn á þessu ári verði um 10-15 milljónir dala. Nemur það um 1,3 til 2 milljörðum króna. Bogi segir í samtali við mbl.is að til lengri tíma vilji hann sjá þetta hlutfall fara upp í 7%. „Við erum að byggja grunn til framtíðar og snúa rekstrinum við,“ segir hann og bætir við: „Á síðasta ári sáum við talsverðan bata á ýmsum sviðum í okkar rekstri ef við horfum frá MAX-áhrifunum sem við höfum ekki stjórn á. Við erum því að ná árangri og ætlum að ná betri árangri á þessu ári.“

Einn af þeim óvissuþáttum sem uppi eru í ferðaþjónustu á heimsvísu eru áhrif af kórónuveirunni. Bogi segir að farþegar frá Kína séu reyndar innan við 1% af farþegafjölda Icelandair. „En ef þetta fer að hafa áhrif á ferðamennsku og ferðalög í heiminum getur það haft áhrif á okkur eins og aðra,“ segir hann.

Skoska leiðin „ekki game changer“

Fyrr á þessu ári var greint frá því að á teikniborðinu hjá Sigurði Inga Jóhannssyni, sveitarstjórnar- og samgönguráðherra, væri að fara svokallaða skoska leið varðandi innanlandsflug. Fel­ur hún í sér greiðsluþátt­töku stjórn­valda í inn­an­lands­flugi fyr­ir íbúa á ákveðnum svæðum lands­ins. Spurður út í áhrif af þessu formi fyrir Air Iceland Connect segir Bogi að þessi útfærsla myndi styðja við rekstrargrundvöll félagsins, en ekki skipta höfuðmáli. „Þetta er ekki game changer.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka