Það var glatt yfir fólki í Hveragerði í gær, þrátt fyrir hráslaga og lítið skyggni. Í vinnsluhúsnæði Pure North Recycling komu forsvarsmenn tíu íslenskra fyrirtækja saman og undirrituðu samkomulag undir heitinu Þjóðþrif.
Þar er á ferðinni verkefni sem ætlað er að stórauka endurvinnslu plasts í landinu og draga um leið úr útflutningi þess. Með því er ætlunin að draga úr sótspori sem af endurvinnslunni óhjákvæmilega hlýst.
Pure North býr til plastpallettur sem seldar eru til framleiðslu á nýjum plastvörum hér á landi og erlendis.
Fyrirtækin sem undirrituðu sáttmálann í gær eru Brim, Eimskip, Össur, Mjólkursamsalan, Coca-Cola á Íslandi, Bláa lónið, Lýsi, Krónan, Marel og BM Vallá.
Morgunblaðið tók Einar S. Magnússon, forstjóra Coca Cola á Íslandi, tali við athöfnina.
Sagði hann að drykkjarvöruiðnaðurinn á Íslandi byggi vel að því að framsýnt fólk hefði stofnað Endurvinnsluna fyrir um 30 árum, sem tekur við plastflöskum og dósum til endurvinnslu. Segir hann að það sé markmið fyrirtækisins að 100% af slíkum umbúðum skili sér í þann farveg.
„Í starfsemi Coca-Cola á Íslandi fellur líka til plast utan um hráefni og umbúðir. Yfir 95% af okkar úrgangi er flokkaður í safngáma, m.a. plastið og við fögnum því að nú sé kominn nýr umhverfisvænn valkostur innanlands sem byggist á íslensku hugviti og íslenskum náttúruauðlindum, jarðvarmanum, þar sem tryggt er að plastið sem frá okkur fellur verður aftur notað og að þannig verði tryggð hringrás,“ segir Einar.
Áslaug Hulda Jónsdóttir, sem stýrir viðskiptum og þróun hjá Pure North, segir áætlanir fyrirtækisins mikilvægt framlag í baráttunni við loftslagsvandann.
„Almennt sparast um 1,8 tonn af olíu fyrir hvert tonn sem er endurunnið af plasti vegna þess hversu mikla olíu þarf til þess að búa til nýtt plast. Vinnsluaðferð Pure North, með jarðvarmann og umhverfisvæna orkugjafa að vopni, gefa okkur til viðbótar það forskot að við spörum um 0,7 tonn af kolefnislosun fyrir hvert tonn sem er endurunnið.“
Áslaug bendir á að búnaðurinn og tæknin sem notast er við hér heima sé einstakur.
„Við þrífum plastið með heitu affalsvatni. Það er miklu heitara vatn en sambærileg fyrirtæki nota annars staðar í heiminum. Þau þurfa að hita vatnið upp og ná ekki eins miklum hita og við erum með í affallinu. Það gerir það að verkum að þau þurfa að nota ýmis kemísk efni til þess að bæta upp fyrir lægri hita og það er ekki umhverfisvænt.
Svipað er upp á teningnum með þurrkunarferlið. Þar notum við jarðvarmann til verksins og það er mjög umhverfisvænt. Orkan sem við notum, bæði með þeim hætti og í öðrum þáttum vinnsluferlisins þar sem rafmagn þarf til, erum við að nýta endurnýjanlega orku. Víða erlendis er þeirrar orku aflað með olíu eða jafnvel kjarnorku, “ segir Áslaug Hulda.
Pure North hefur á síðustu árum endurunnið plast og þar hefur einkum verið um heyrúlluplast að ræða. Áslaug Hulda segir að nýr búnaður fyrirtækisins geri fyrirtækinu betur kleift að endurvinna allar tegundir, bæði af hörðu plasti og mjúku.
Fyrirtækið fjárfesti fyrir nokkru í nýjum búnaði frá Póllandi og Þýskalandi sem gerir því mögulegt að keyra tvær aðskildar framleiðslulínur fyrir hinar ólíku tegundir plasts en að fram til þessa hafi þurft að skipta búnaðnum á milli vinnslnanna.
Það er hins vegar ekki nægilega hentugt til lengdar.
Talið er að um 20 þúsund tonn falli til af plastúrgangi á Íslandi á ári og Áslaug Hulda segir drauminn vera þann að endurvinna það allt hér heima. Starfsmenn og eigendur Pure Northa Recycling stefna ótrauðir að því.
Vinnslugeta fyrirtækisins er að sögn Áslaugar Huldu um 20 þúsund tonn á ári. Hins vegar geri áætlanir fyrirtækisins ráð fyrir að í ár verði framleiðslan í kringum 5 þúsund tonn, eða 25% af fullri afkastagetu. Væntingar séu um að breyting verði á því í rétta átt á komandi árum.
Áslaug Hulda segir að mikilvægt sé að byggja endurvinnsluna á nákvæmri og góðri flokkun og þar skipti máli að flokka hráefnið eftir lit og tegund plasts. Eftir því sem meira sé vandað til verka á þessu stigi aukist verðmæti afurðanna.
Áslaug Hulda bendir einnig á að Pure North skilgreini samfélagsábyrgð sína með víðtækari hætti en svo að það nái einungis til endurvinnslustarfsins. Fyrirtækið er aðili að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Þá hefur það einnig efnt til samstarfs við Múlalund.
„Við höfum fengið Múlalund og öflugt starfsfólk þar til liðs við okkur. Þannig hafa einstaklinar með skerta starfsgetu tekið að sér ákveðna þætti í flokkunarferlinu hjá okkur. Það hefur gefist einkar vel.“
Þá hefur Pure North einnig átt í samstarfi við Fangelsismálastofnun og þannig hafa fangar í afplánun fengið tækifæri til þess að sækja vinnu hjá fyrirtækinu í Hveragerði.