Stofnandi Amazon, milljarðamæringurinn Jeff Bezos, var að kaupa sér hús á Los Angeles-svæðinu fyrir litlar 165 milljónir Bandaríkjadala, sem svarar til 20,9 milljarða króna. Með þessu er sett nýtt met í fasteignaverði á svæðinu samkvæmt frétt The Wall Street Journal.
Bezos keypti Warner-fasteignina af fjölmiðlamógúlnum David Geffen að því er WSJ greinir frá. Þar kemur fram að þar með hafi fyrra fasteignamat á svæðinu fallið en það voru kaup Lachlan Murdoch, elsta sonar Ruperts Murdoch, á fasteign á Bel-Air-svæðinu en það hús kom fyrir í The Beverly Hillbillies-sjónvarpsþáttaröðinni.
Warner Estate-eignin nær yfir 3,6 hektara landsvæði í Beverly Hills. Það er byggt í georgískum stíl og má sem dæmi nefna að hluti gólfsins var áður í eigu Napóleons. Þar er að sjálfsögðu gestahús, tennisvöllur og níu holu golfvöllur. Húsið var byggt á fjórða áratug síðustu aldar af Jack Warner, fyrrverandi forstjóra.
Bezos er talinn ríkasti maður heims en eignir hans eru metnar á yfir 110 milljarða Bandaríkjadala. Hann er meðal annars eigandi The Washington Post.