Stöðugildum fækkar um fjórtán hjá Eimskip og TVG-Zimsen vegna skipulagsbreytinga sem ætlað er að einfalda skipulag fyrirtækisins og hagræða rekstri, að því er fram kemur í tilkynningu frá Eimskip. Þar segir að með breytingunum myndist nýtt samþætt sölu og viðskiptastýringarsvið og að sviðinu tilheyra viðskiptaeiningar sem áður tilheyrðu sölusviði og flutningsmiðlun TVG-Zimsen, dótturfélags Eimskips.
Björn Einarsson verður nýr framkvæmdastjóri sölu og viðskiptastýringar og taka breytingarnar strax gildi. Björn hefur starfað hjá Eimskip og dótturfélögum í 14 ár meðal annars sem framkvæmdastjóri Eimskips í Evrópu með aðsetur í Hollandi og framkvæmdastjóri TVG-Zimsen.
Fram kemur í tilkynningunni að samhliða breytingunum hefur Eimskip komist að samkomulagi við Matthías Matthíasson, sem verið hefur framkvæmdastjóri sölusviðs, um að láta af störfum
Þá mun Sara Pálsdóttir leiða innflutning, Sigurður Orri Jónsson leiða útflutning og Elísa D. Björnsdóttir taka við sem framkvæmdastjóri TVG-Zimsen af Birni Einarssyni. Arndís Aradóttir mun leiða tollskýrslugerð og farmskrá og Andrés Björnsson viðskiptaþróun og kostnaðareftirlit.
„Með þessari breytingu erum við að einfalda skipulag og verðum betur í stakk búin til að auka snerpu í samskiptum og þjónustu við viðskiptavini okkar. Við höldum áfram á vegferð hagræðingar og samþættingar á sama tíma og við eflum slagkraftinn í sókninni,“ er haft eftir Vilhelm Má Þorsteinssyni forstjóra.