Nikkei-hlutabréfavísitalan í Tókýó er enginn eftirbátur bandarískra hlutabréfavísitalna en almennt verðfall er á hlutabréfamörkuðum vegna ótta fjárfesta við afleiðingar kórónuveirunnar.
Nikkei-vísitalan lækkaði um 3,3% í dag en í gærkvöldi varð mikil lækkun á mörkuðum vestanhafs. Dow Jones-vísitalan lækkaði um 3,6% í gær eða um rúmlega þúsund punkta. Þetta er mesta lækkun á einum degi í meira en tvö ár.
S&P 500-vísitalan lækkaði um 3,4% og Nasdaq lækkaði um 3,7%. Óttast fjárfestar efnahagsleg áhrif veirunnar en orku- og tæknifyrirtæki lækkuðu mest í verði á Wall Street í gærkvöldi. Eins lækkuðu flugfélög og ferðaþjónustufyrirtæki mikið í verði.