Tekjutap Landsvirkjunar á síðasta ári vegna lokunar þriðja kerskála Rio Tinto í Straumsvík, í kjölfar ljósboga sem þar myndaðist, nam 16 milljónum dala. Það nemur rétt rúmlega 2 milljörðum króna.
Ljósbogi myndaðist í kerskálanum 21. júlí, en þar eru 160 ker. Af öryggisástæðum var slökkt á skálanum, en endurræsing á fyrstu kerjunum hófst í lok ágústmánaðar.
Hagnaður Landsvirkjunar fyrir óinnleysta fjármagnsliði á síðasta ári var 173 milljónir dala, eða sem nemur 21 milljarði króna. Árið 2018 var hagnaðurinn 184 milljónir dala og lækkar hann því um 5,9% milli ára. Heildarhagnaður ársins var 112,7 milljónir dala, eða 13,6 milljarðar króna, en var 121 milljón dala árið áður.
Rekstrartekjur félagsins námu 509,6 milljónum dala, eða um 61,7 milljarði króna og lækkuðu um 4,6% frá árinu áður, eða um 24,3 milljónir dala.
Haft er eftir Herði Arnarsyni, forstjóra félagsins, í tilkynningu vegna uppgjörsins að reksturinn hafi litast af erfiðum ytri aðstæðum. „Afurðaverð stórra viðskiptavina var lágt og hafði það neikvæð áhrif á tekjur, enda er hluti samninga enn bundinn við þróun álverðs. Þá varð tekjutap upp á um 16 milljónir dollara af stöðvun kerskála þrjú hjá álveri Rio Tinto í Straumsvík.“
Hörður vísaði einnig í óveðrið í desember. Sagði hann að þótt það hafi ekki valdið truflunum í rekstri aflstöðva Landsvirkjunar, hafi það haft áhrif á rekstur Landsnets, sem sé hluti af samstæðu Landsvirkjunar. „Atburðarásin í desember staðfestir að brýn þörf er á því að styrkja flutningskerfi raforku á Íslandi.“