51 milljarðs króna afgangur var á viðskiptajöfnuði við útlönd á fjórða ársfjórðungi samanborið við 62,9 ma.kr. afgang ársfjórðunginn á undan.
Halli á vöruskiptajöfnuði var 11,8 ma. kr. en afgangur á þjónustujöfnuði var 55,7 ma. kr. Frumþáttatekjur skiluðu 9,8 ma. kr. afgangi en rekstrarframlög 2,6 ma. kr. halla.
Þetta kemur fram í nýbirtum upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands sem sýna bráðabirgðayfirlit yfir greiðslujöfnuð við útlönd á fjórða ársfjórðungi 2019 og erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.
Viðskiptaafgangur fyrir árið 2019 í heild nam 172,5 ma.kr. samanborið við 85,6 ma.kr. fyrir árið á undan. Halli á vöruskiptajöfnuði var 99 ma.kr. en afgangur á þjónustujöfnuði var 239 ma.kr. Frumþáttatekjur skiluðu 54,7 ma.kr. afgangi en rekstrarframlög 22,3 ma.kr. halla.
Hrein staða við útlönd var jákvæð um 667 ma.kr. eða 22,5% af vergri landsframleiðslu (VLF) og batnaði um 84 ma.kr. eða 2,8% af VLF á fjórðungnum.