Arion banki býður nú upp á nýja tegund viðbótarlána sem gera fleirum kleift að nýta lífeyrissjóðslán til að fjármagna kaup á íbúðarhúsnæði. Er bankinn að koma sérstaklega til móts við yngri og efnaminni viðskiptavini sem hafa ekki tök á að nýta sér lífeyrissjóðslán til íbúðakaupa vegna lánshlutfalls eða hámarksfjárhæða.
Lífeyrissjóðir bjóða almennt hagstæðari vexti en lægri lánshlutföll og lánsfjárhæðir en bankar og því hafa ekki allir átt þess kost að nýta sér lán lífeyrissjóða til húsnæðiskaupa. Með viðbótarlánum Arion banka verður hægt að fá lán fyrir því sem upp á vantar segir í tilkynningu frá bankanum.
Með nýju viðbótarlánum Arion banka getur heildarlánshlutfall orðið allt að 80% af kaupverði og allt að 85% ef um fyrstu kaup er að ræða. Við endurfjármögnun getur lánshlutfallið verið 80%. Í tilkynningunni segir að Arion banki vilji eiga samstarf við sem flesta lífeyrissjóði um viðbótaríbúðalán til þess að auðvelda lántökum ferlið og gera það sem þægilegast fyrir lántakendur.
„Það er verið að horfa til þeirra sem hafa viljað nýta sér lán lífeyrissjóða sem oft hafa verið á hagstæðum kjörum en hafa ekki haft það eiginfjárframlag sem til þarf. Þetta er valkostur fyrir þann hóp, að taka þá hjá okkur viðbótarlán til þess að brúa bilið. Þetta hentar til dæmis ungu fólki sem er að kaupa fyrstu eða aðra íbúð,“ segir Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka, í samtali við mbl.is.
Viðbótaríbúðalán geta verið verðtryggð eða óverðtryggð, þau bera breytilega vexti og lánstími getur verið frá 5 árum til 25 ára. Lánin eru að svo stöddu einvörðungu afgreidd í útibúum Arion banka um land allt en ekki á vef bankans.