Breska flugfélagið Flybe var lýst ógjaldfært í nótt og allar flugvélar þess kyrrsettar. Allri starfsemi félagsins hefur verið hætt. Þetta kemur fram í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í nótt.
Samdráttur í flugferðum í kjölfar útbreiðslu kórónuveirunnar gerði útslagið en Flybe hefur þar fyrir utan átt í rekstrarörðugleikum upp á síðkastið. Félagið varð nánast gjaldþrota í janúar en bresk skattayfirvöld veittu því greiðslufrest.
Allri starfsemi Flybe, sem hefur boðið upp á yfir helming innanlandsflugs utan Lundúna um árabil, hefur verið hætt. Um 2.000 manns starfa hjá Flybe og missa nú að öllum líkindum vinnuna.
„Mér þykir það afar leitt að okkur tókst ekki að tryggja það fjármagn sem vantaði upp á til að snúa rekstrinum við,“ segir Mark Anderson, framkvæmdastjóri Flybe, í bréfi til starfsmanna félagsins.
Tugir þúsunda áttu bókaða flugferð með Flybe og hafa þeir fengið skilaboð þess efnis að þeir verði að finna út úr því sjálfir hvernig þeir ætla að komast á áfangastað.
Í tilkynningu félagsins segir að Flybe óskaði eftir frekari skattaívilnunum og 100 milljóna punda neyðarláni frá ríkinu til að komast hjá gjaldþroti en því var hafnað.