WOW hafi verið gjaldfært

mbl.is/​Hari

Fyrrverandi stjórnarmenn í WOW air auk fjármálastjóra félagsins telja að félagið hafi verið gjaldfært allt fram að þeim tíma er það var lagt inn til gjaldþrotaskipta 28. mars í fyrra. Þetta kom fram í skýrslutökum yfir þeim í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Þar var efnt til þinghalds í tengslum við mál sem slitabú WOW air rekur gegn Títan fjárfestingafélagi. Síðarnefnda félagið var móðurfélag WOW air og lýtur málið að millifærslu frá WOW til Títans að fjárhæð 108 milljónir króna sem framkvæmd var í lok janúar 2019, örfáum vikum áður en félagið varð gjaldþrota. Telja slitastjórar búsins að WOW air hafi í raun verið orðið ógjaldfært á þeim tíma er hún var framkvæmd.

Tap WOW air á árinu 2018 nam ríflega 22 milljörðum króna. Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri fyrir fyrstu tvo mánuði ársins 2019, sem lagt var fram í dómnum í gær, nam tap félagsins 2,7 milljörðum króna yfir tímabilið.

Millifærslan sem slitabúið vill láta rifta var hluti af greiðslu kaupverðs sem WOW air hafði skuldbundið sig til að inna af hendi til Títans vegna kaupa fyrrnefnda félagsins á Cargo Express af hinu síðarnefnda. Þau viðskipti voru gerð á árinu 2018 til þess að styrkja eiginfjárstöðu WOW air sem þá var orðin mjög bágborin.

Millifærslan var andvirði arðgreiðslu frá Cargo Express en samkvæmt samningi milli WOW air og Títan átti arðgreiðslan í síðasta lagi að greiðast í lok apríl 2019 eða rúmum mánuði eftir að félagið keyrði í þrot með þekktum afleiðingum. Allir stjórnarmennirnir, fjármálastjórinn ásamt yfirlögfræðingi félagsins, sem einnig gaf skýrslu, voru sammála um að enginn vafi hefði leikið á að greiðsluna hefði borið að inna af hendi á þeim tíma er það var gert.

Bentu sóknaraðilar þá á að í kaupsamningi hefði verið kveðið á um fyrrnefnda greiðsludagsetningu í lok apríl og hún nefnd á ensku „due date“. Sagði fjármálastjóri félagsins að þessi háttur hefði verið hafður á málum þar sem greiðslan hefði ekki mátt eiga sér stað fyrr en endurskoðun reiknings Cargo Express hefði farið fram og að það hefði í síðasta lagi getað gerst lögum samkvæmt í lok apríl. Hans skilningur hefði verið sá að greiðsluna ætti að inna ef hendi þegar reikningurinn lægi samþykktur og endurskoðaður fyrir og að það hefði verið raunin og því gengið frá greiðslunni fyrr en kveðið var á um í hinum skriflega samningi.

Skýrslugjöf í skugga sóttkvíar

Fyrst til að gefa skýrslu var Liv Bergþórsdóttir, fyrrverandi stjórnarformaður félagsins. Hún gaf skýrsluna gegnum síma þar sem hún er í sóttkví eftir að hafa dvalið á H10 Adeje Palace-hótelinu á Tenerife en þar kom upp kórónuveirusmit í síðustu viku. Sagði hún að stjórnin hefði gert sér grein fyrir því undir lok árs 2018 og á fyrstu mánuðum ársins 2019 að staðan væri þröng og að félagið hefði þurft að forgangsraða því hvaða reikningar voru greiddir. Þar hefði stjórnin lagt höfuðáherslu á að flugöryggi væri tryggt, að félagið ætti fyrir launum og að það stæði í skilum með opinber gjöld. Aðrir reikningar hefðu stundum þurft að bíða.

Þegar Sveinn Andri Sveinsson, annar tveggja slitastjóra búsins, spurði hana nánar út í hvort félagið hefði getað talist gjaldfært við þær aðstæður benti hún á að forsendan fyrir þeirri afstöðu hefði verið sú að viðræður hefðu staðið yfir um aðkomu nýs eiganda að félaginu. Stjórnin hefði haft trú á því að þær viðræður myndu koma félaginu fyrir vind. Í svipaðan streng tók Helga Hlín Hákonardóttir, sem sat í stjórn félagsins. Hún er lögmaður og sagði að með hliðsjón af lögum um gjaldþrotaskipti hefði hún eins og aðrir stjórnarmenn litið svo á að „möguleg ógjaldfærni“ myndi líða hjá innan skamms tíma, vegna þeirra viðræðna við mögulegan fjárfesti sem áður er getið.

Í sama streng tók Davíð Másson, sem sat í stjórninni á sama tíma. Hann gaf skýrslu gegnum síma líkt og Liv en var staddur á flugvelli þegar skýrslutakan fór fram.

Skoðuðu ekki uppgjörin

Meðal gagna sem lögð hafa verið fram í málinu eru fyrrnefnd uppgjör fyrir árið 2018 og fyrstu tvo mánuði ársins 2019. Eru það gögn sem slitabúið hefur aflað úr gögnum WOW air.

Enginn stjórnarmannanna þriggja sem skýrslur voru teknar af kannaðist við að hafa fengið kynningu á þessum uppgjörum á stjórnarfundum á árinu 2019. Benti Helga Hlín á að stjórnin hefði ekki „verið að horfa í baksýnisspegilinn“ og Liv ítrekaði að öll orka stjórnarinnar hefði farið í að fleyta félaginu yfir erfiðasta hjallann. Bar Stefán Sigurðsson, fjármálastjóri félagsins, við minnisleysi þegar hann var spurður hvort hann hefði kynnt uppgjörin fyrir stjórninni á síðustu mánuðum í starfsemi félagsins. Sagðist hann einfaldlega ekki geta fullyrt það því hann myndi það ekki.

Engar fundargerðir 2019

Athygli vekur að stjórn WOW air hélt engar fundargerðir á árinu 2019, á sama tíma og félagið stefndi í þrot. Þó kom fram í máli þeirra sem skýrslur voru teknar af í dóminum að stjórnin hefði fundað nær daglega síðustu mánuðina í starfsemi félagsins, oftast að morgni eða í lok dags. Stjórnarmennirnir kunnu ekki skýringar á því af hverju engar fundargerðir voru haldnar. Þó kom fram að mögulega hefði ekki unnist tími til að ganga formlega frá þeim til skjalavistunar, sökum þeirra anna sem fólust í þeirri viðleitni að bjarga félaginu frá þroti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK