Flugfélög hafa eytt hundruðum þúsunda lítra af eldsneyti til að knýja tómar flugvélar á sama tíma og eftirspurn eftir flugi hefur hríðfallið vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Þetta gera félögin til að halda í afgreiðslutíma sína (e. slots) á flugvöllum, en samkvæmt reglum eiga flugfélög á hættu að missa afgreiðslutímana fari nýting þeirra undir 80%.
Grant Shapps, samgönguráðherra Bretlands, vekur máls á þessu á Twitter, en hann hefur sent forstjóra Airport Coordination Limited (ACL), félags sem sér um afgreiðslutíma 46 alþjóðaflugvalla um allan heim, bréf vegna málsins. Kallar hann eftir því að reglunum verði breytt í ljósi útbreiðslu veirunnar. „Þetta fyrirkomulag er óviðunandi,“ segir Shapps í bréfinu. „Það er hvorki hagur fluggeirans, farþega né umhverfisins.“
Aviation demand is reduced due to COVID-19, but airlines are being forced to fly some ‘ghost flights’ to avoid losing their slots – bad news for the environment, airlines & passengers. I've written to the regulator to request urgent reconsideration of 80% slot utilisation rule. pic.twitter.com/OsKEH2S4Ab
— Rt Hon Grant Shapps MP (@grantshapps) March 5, 2020
Reglan hefur þegar verið felld niður vegna flugs til og frá Hong Kong og meginlandi Kína en er óbreytt á öðrum svæðum.
Kórónuveiran hefur haft mikil áhrif á flugfélög um allan heim, en Alþjóðasamband flugfélaga hefur gefið út að flugfélög heims gætu tapað allt að 113 milljörðum dala, um 14.000 milljörðum króna, takist ekki að halda útbreiðslu veirunnar í skefjum. Segir sambandið að áhrifin á fluggeirann yrðu þá sambærileg efnahagshruninu 2008.