Eldrauður dagur í kauphöllum á Íslandi og erlendis

Mikil lækkun hefur verið í kauphöllum bæði á Íslandi og …
Mikil lækkun hefur verið í kauphöllum bæði á Íslandi og erlendis í dag. mbl.is/Þórður

Hlutabréf allra félaga í Kauphöllinni lækkuðu í viðskiptum í dag og lækkaði úrvalsvísitala Kauphallarinnar um 3,51%. Erlendis hafa markaðir einnig lækkað mikið og er lækkunin sú mesta síðan við fall Lehman Brothers árið 2008.

Lækkunin úrvalsvísitölunnar hér heima var umtalsvert meiri fyrri hluta dags og var lækkun úrvalsvísitölunnar mest 5,57%, en þegar líða tók á seinni part dagsins gekk lækkunin talsvert til baka.

Sigurður og Nanna bæta við sig í Kviku

Mest lækkuðu bréf Origo, en þau fóru niður um 6%, þó að það hafi aðeins verið í 10 milljóna króna viðskiptum. Kvika lækkaði um 5,8% í 713 milljón króna viðskiptum, en fjárfestarnir Sigurður Bollason og Nanna Ásgrímsdóttir gerðu framvirka samninga um 4,71% hlut í bankanum til viðbótar við 1,83% hlut sem þau áttu áður. Er samtals hlutur þeirra með samningunum því 6,54%.

Lækkun markaða var víða aðalefni fjölmiðla, enda um að ræða …
Lækkun markaða var víða aðalefni fjölmiðla, enda um að ræða mestu lækkun víða síðan við fall Lehman Brothers 2008. AFP

Sýn og Iceland Seafood lækkuðu um 5,5% og Skeljungur um 5,4%. Icelandair lækkaði um 4% í 182 milljón króna viðskiptum, en talsverð sveifla var á gengi félagsins yfir daginn og lækkaði gengið mest um 9,3%, en sú lækkun gekk að miklu leyti til baka fyrir lokun markaða.

Arion banki lækkaði um 4,2% í 576 milljón króna viðskiptum og Marel um 3,1% í 1,3 milljarða viðskiptum.

Lækkunin í Evrópu um 8%

Í Evrópu var lækkunin meiri en á Íslandi, en þar var lækkun helstu hlutabréfavísitala um 8%. Það sem af er degi í Bandaríkjunum hefur lækkunin verið á bilinu 5-6%, en strax eftir opnun markaða í morgun voru viðskipti stöðvuð tímabundið í 15 mínútur þegar lækkun S&P 500 vísitölunnar fór í 7%.

Markaðir um allan heim voru rauðir í dag.
Markaðir um allan heim voru rauðir í dag. AFP

Lækkun á mörkuðum kem­ur í kjöl­far þess að samn­ing­ar Rússa og Sam­taka olíu­fram­leiðslu­ríkja (OPEC) um þak á fram­leiðslu olíu runnu út í sand­inn. Bæt­ist það ofan á áhyggj­ur fjár­festa vegna út­breiðslu kór­ónu­veirunn­ar með til­heyr­andi sam­drætti í spurn eft­ir vöru og þjón­ustu sem og vanda­mála í fram­leiðslu­ferl­um sem komið hafa upp vegna veirunn­ar.

„Bear market“ í Bretlandi

Í Bretlandi lækkaði FTSE 100 vísitalan um 7,7% í dag, en það þýðir að virði fyrirtækja í kauphöllinni hefur lækkað um 124 milljarða punda, eða sem nemur 20.800 milljörðum íslenskra króna. Hefur vísitalan nú lækkað um 19% á síðustu tveimur vikum og virði bréfa í kauphöllinni lækkað um 360 milljarða punda. Frá því að hæstu hæðum var náð um miðjan janúar hefur vísitalan nú lækkað um meira en 20%, en þegar markaður er dott­inn niður um meira en 20% frá toppi tala menn um það sem á ensku er kallað „bear mar­ket“, eða „beygðan markað“. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK