Réttur tími fyrir trúverðugan pakka hins opinbera

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka. Ljósmynd/Aðsend

Morgundagurinn og næstu dagar munu hafa mikið með það að segja hvort markaðurinn muni finna botn og jafna sig eða hvort vænta megi langvarandi erfiðleika á markaði. Þetta segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, í samtali við mbl.is. Hann telur að nú sé rétti tíminn fyrir ríkisvaldið og Seðlabankann að koma fram með trúverðugan pakka til að koma til móts við efnahagsaðstæður.

Í dag hafa miklar hræringar verið á mörkuðum hér heima sem og erlendis, en það má rekja til þess að samn­ing­ar Rússa og Sam­taka olíu­fram­leiðslu­ríkja (OPEC) um þak á fram­leiðslu olíu runnu út í sand­inn á föstudaginn. Skall á verðstríð í kjölfarið með tilheyrandi lækkun olíuverðs og bæt­ist það ofan á áhyggj­ur fjár­festa vegna út­breiðslu kór­ónu­veirunn­ar með til­heyr­andi sam­drætti í spurn eft­ir vöru og þjón­ustu sem og vanda­mála í fram­leiðslu­ferl­um sem komið hafa upp vegna veirunn­ar. Hafa hlutabréfavísitölur í Evrópu lækkað um rúmlega 7% og vestanhafs um 4-5%, en lækkunin var umtalsvert meiri í upphafi dags.

Kemur eins og búmerang til baka

Jón Bjarki segir að undanfarið hafi alþjóðlegir markaðir í nokkur skipti reynt að hrista af sér svartsýnina um kórónuveiruna og áhrif hennar á heimsbúskapinn og fyrirtækjarekstur. „Það hefur einhvern veginn alltaf komið til baka, verið eins konar búmerang,“ segir hann, en lækkunin í dag er sú mesta hingað til.

Segir Jón Bjarki að í hvert skipti sem aðeins hafi séð til sólar hafi jafnharðan komið fram nýjar upplýsingar um útbreiðslu veirunnar eða frá greinendum sem meti neikvæð áhrif af veirunni. Þá hafi uppfærðar spár alþjóðlegra stofnana sem spái fyrir um áhrif á heimsvísu meira og minna allar verið á þá leið að áhrifin verði umtalsverð á fyrsta og öðrum ársfjórðung.

Lækkandi olíuverð gæti mildað áhrif

Í þessu umhverfi lækkar spurn eftir olíu og þegar olíuframleiðsluríkin ætluðu að bregðast við með framleiðslutakmörkunum endaði það með hvelli á föstudaginn. „Það bætti gráu ofan á svart varðandi olíuverðið,“ segir Jón Bjarki en bætir við að sú niðurstaða hafi þó líklega mildandi áhrif á einstaklinga og fyrirtæki hér á landi með því að draga úr verðbólgu og lækka kostnað.

Fleiri þættir hafa einnig áhrif á það mikla verðfall sem hefur orðið á hlutabréfamörkuðum og segir Jón Bjarki að ofan á hreint mat um afkomu bætist við að fjármagnseigendur reyni að flýja í öryggi. Til viðbótar er þriðji þátturinn tæknilegar afleiðingar vegna veðkalla og tryggingastöðulosana. „Það magnar tímabundið upp undirliggjandi áhrif en gengur venjulega fljótt til baka,“ segir hann.

Komandi dagar og vikur mikilvægar

Komandi dagar munu að sögn Jóns Bjarka vera veigamiklir upp á framhaldið. „Dagurinn er ekki úti enn, en morgundagurinn og næstu dagar munu ríða baggamun hvort markaðurinn finni botn og jafni sig eða hvort syrti í álinn.

Í núverandi ástandi með kórónuveiruna hefur ferðaþjónustan verið talin í hvað viðkvæmustu stöðunni og segir Jón Bjarki að hún sé háð geysilegri óvissu nú um stundir. Þótt ekki sé hægt að átta sig á hversu þungt höggið verður í ár sé ljóst að það verði talsvert. Segir hann að næsti vikur muni skipta gríðarlegu máli þar um, en í mars og apríl kemur inn mikill þungi bókana fyrir stærstu sumarmánuðina. Segir hann að miðað við stöðuna með kórónuveiruna megi búast við að ferðamenn bíði aðeins og seinki ákvörðun um ferðalag og taki hana jafnvel með skömmum fyrirvara rétt fyrir sumarið. Það muni þó að öllum líkindum hafa umtalsverð áhrif ef bókanir taki ekki eitthvað við sér þegar líði á marsmánuð. Jón Bjarki tekur þó fram að jafnvel þótt höggið gæti orðið talsvert segi reynslan frá því þegar fyrri faraldar gengu yfir að ferðaþjónusta hafi þá verið snögg að taka við sér, sérstaklega á þeim svæðum þar sem höggið varð mest.

Ekki mikill skaði þótt krónan lækki aðeins

Eitt af því sem getur haft mikil áhrif á spurn eftir Íslandi sem ferðamannastað er gengi krónunnar, en Jón Bjarki segir að það hafi meðal annars hjálpað til við að milda höggið í fyrra að gengið hafði þá þegar lækkað. „Ég geri ráð fyrir að sumir í peningastefnunefnd sjái ekki mikinn skaða þótt krónan lækki aðeins, svo framarlega sem verðbólgan fer ekki verulega upp,“ segir hann.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði í síðustu viku að vaxtalækkun myndi …
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði í síðustu viku að vaxtalækkun myndi ekki skila sér í hagkerfið á næstu mánuðum, en Seðlabankinn væri með önnur verkfæri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í næstu viku er vaxtaákvörðunardagur peningastefnunefndar Seðlabankans. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á fundi efnahagsnefndar Samfylkingarinnar í síðustu viku að fleiri tól væru til staðar en vaxtalækkun til að bregðast við efnahagslegum áhrifum veirunnar. Sagði hann jafnframt að vaxtalækkun myndi ekki skila sér almennilega inn í hagkerfið fyrr en eftir nokkra mánuði.

Gæti kynnt slökun í ríkisfjármálum

Spurður út í mögulegar aðgerðir Seðlabankans eða hins opinbera við núverandi aðstæður segir Jón Bjarki að það besta í stöðunni væri trúlegast ef ríkisstjórnin og Seðlabankinn myndu saman koma með einhverja heildstæða og trúverðuga áætlun sem myndi þjóna þeim tilgangi að gæta að hagkerfinu í heild. „Þetta hefur verið látið í veðri vaka og ég tel að það sé hárrétt leið til að framkvæma hlutina,“ segir hann. Þá telur Jón Bjarki að slík stefna geti verið sett fram með eða án vaxtalækkunar.

Nefnir hann í þessu dæmi möguleika á að ríkið gæti kynnt slökun í ríkisfjármálum með auknum framkvæmdum eða lækkun á álögum auk þess sem Seðlabankinn gæti slakað á eiginfjárhlutfalli fjármálastofnana, víkkað fjármálaleg skilyrði og liðkað fyrir lausafé í umferð með greiðari aðgangi að lánum.

Segir Jón Bjarki að miðað við stöðuna með kórónuveiruna og lækkun á mörkuðum væri rétti tíminn til að kynna svona aðgerðir í þessari eða næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK